Á upplýsingafundi almannavarna í dag minnti Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, á að enn væru um það bil þrjár vikur þar til fyrstu tilslakanir á samkomubanni sem nú er í gildi komi til framkvæmda. Enn væru samkomur fleiri en tuttugu manna bannaðar. Það ætti líka við matarboð stórfjölskyldna. Og þó að takmörkunum verði aflétt í skrefum eftir 4. maí væri fólk áfram hvatt til að gæta að sér í samskiptum við fólk, sérstaklega þeirra sem eru í viðkvæmum hópum.
Víðir gerði ótta og kvíða einnig að umtalsefni á fundinum. Hann sagði þetta tvennt geta verið fylgifisk ástandsins í þjóðfélaginu. Ef fólk upplifir ótta og kvíða ætti það ekki að hika við að leita sér aðstoðar, hvort sem það væri með því að ræða við góðan vin eða tala við sérfræðinga. Minnti hann á hjálparsíma Rauða krossins í því sambandi.
Hann hrósaði svo krökkum Íslands sérstaklega, krökkum sem hafa farið að leiðbeiningum, farið í skólann og staðið sig vel. Sinnt sinni íþrótt eins og hægt er. Krakkar sem virða reglurnar um að vera í sama hópi í skóla og utan skóla þótt það geti reynst þeim erfitt. „Krakkar, þið eruð að standa ykkur vel og eruð frábær.“