Íslensk erfðagreining hefur hafið mótefnamælingar vegna COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu fyrirtækisins.
Fram kemur að fyrst í stað setji þau ákveðna hópa í forgang og bjóði þeim að koma. Nú sé einblínt á fólk sem hefur verið með staðfesta COVID-19 sýkingu en sé batnað.
Þá sé ætlunin að bjóða stórum hluta þess hóps sem hefur verið í sóttkví að koma í mótefnamælingu. Í framhaldinu verði vonandi hægt að bjóða almenningi uppá slíkar mælingar en vegna umfangsins sé óvíst hvenær það verður. Það átak verði kynnt sérstaklega í fjölmiðlum.
Enn fremur segir í tilkynningu Íslenskrar erfðagreiningar að mikið álag sé á Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna vegna þessa og vilja þau biðja fólk um að sýna biðlund ef það vill komast í slíka mælingu.
Íslensk erfðagreining hefur hafið mótefnamælingar vegna COVID-19. Fyrst í stað setjum við ákveðna hópa í forgang og...
Posted by Íslensk erfðagreining on Thursday, April 16, 2020
Mótefni hjá sýktum staðfest
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagðist á daglegum blaðamannafundi almannavarna í gær reikna með að skimun fyrir mótefnum gegn veirunni sýndi hver hin raunverulega dreifing veirunnar væri í samfélaginu.
Þá var búið að mótefnamæla milli 700 til 800 manns í gær, þar af voru um 500 sem ekki var vitað til að hefðu sýkst. Kári sagði að nú þegar sæist það mynstur sem búist var við: Meirihluti þeirra sem hefur sýkst er kominn með mótefni.
Fjölmargar þjóðir heims eru nú að hefja mótefnamælingar. Kári sagði að til þess yrði að horfa þegar takmarkanir á ferðalögum til og frá Íslandi væru ákveðnar. „Þú vilt ekki hleypa fólki inn í landið frá löndum sem hafa ekki verið að gera nokkurn skapaðan hlut.“
Framlag Íslenskrar erfðagreiningar til þróunar bóluefnis gegn veirunni verður að sögn Kára það að sýna fjölbreytilega byggingu hennar. Hann sagðist bjartsýnni en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á að bóluefni yrði fljótt aðgengilegt. Klínískar prófanir á því væru þegar hafnar. Sagðist hann gera sér vonir um að það yrði, í einhverju formi, tilbúið innan árs.