Öll börn á Spáni, um 8,2 milljónir talsins, hafa verið innilokuð frá því að útgöngubann tók gildi í landinu fyrir rúmum mánuði síðan. Þau eru einu börnin í álfunni sem mega ekki fara út.
Mögulega munu enn líða nokkrar vikur þar til börnum á Spáni verður leyft að yfirgefa heimili sín, þrátt fyrir að þær raddir verði æ háværari sem telja að frekari innilokun gæti gert börnunum mikinn óleik og pressan á yfirvöld frá þreyttum foreldrum sem hafa áhyggjur af börnunum sínum aukist dag frá degi.
„Ekki bíða lengur: Frelsið börnin okkar!“ skrifaði Colau, en í færslunni lýsti borgarstjórinn ástandinu á heimilinu sem erfiðu. Börnin hennar, þriggja og níu ára, eru reið, leið og skilja ekki af hverju þau þurfa að vera inni.
Estos días cada vez somos más voces las que reclamamos que se tenga en cuenta a los niños y las niñas en este...
Posted by Ada Colau Ballano on Wednesday, April 15, 2020
Á Spáni er nær algjört útgöngubann í gildi. Örfáar starfsstéttir byrjuðu að fara til vinnu í þessari viku, til dæmis starfsmenn í byggingariðnaði og framleiðslustörfum, en að öðru leyti þurfa flestir að vera heima. Fullorðnir mega skjótast eftir nauðsynjavörum út í búð og leyfa hundum að hreyfa sig og gera þarfir sínar. En börnin sitja inni.
„Ef fullorðnir mega fara út að labba með hundinn, af hverju þurfa þá börnin okkar að bíða?” skrifar Colau. Sérfræðingar hafa varað við því að áhrif þessa ástands á börnin séu þegar orðin slæm.
Alicia Arévalo, barnalæknir í Madríd, segir að komum barna til læknis vegna andlegra vandamála hafi fjölgað mikið síðan faraldurinn braust út og innilokunin hófst. Börnin þurfa á hjálp að halda vegna martraða, svefnörðugleika og átraskana, svo eitthvað sé nefnt.
„Þau eru afar viðkvæm, þau gráta út af engu, þau verða einræn og tala ekki um það sem er að angra þau og fá síðan bræðiskast að því er virðist út af engu. Mörg þeirra eru skelfingu lostin því að þau halda að ömmur þeirra og afar séu að fara að láta lífið, eða foreldrar þeirra að missa vinnuna,“ segir Arévalo, í samtali við El País.
Aðstæður barna mismunandi milli ríkja álfunnar
Spánn hefur orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum og þar hafa fleiri smit greinst en í nokkru öðru ríki Evrópu, tæplega 185 þúsund talsins. Tæplega 20.000 manns eru látin á Spáni vegna veirunnar.
Önnur Evrópuríki þar sem smit hafa verið útbreidd og útgöngubönn í gildi hafa hins vegar leyft börnum að fara út að viðra sig.
Börnin á Ítalíu fengu á ný að fara út að hreyfa sig í upphafi þessa mánaðar, en með skilyrðum þó – einungis í stuttan tíma í einu og í grennd við heimili sín í fylgd með foreldri. Það hafa börn í Frakklandi og Þýskalandi, þar sem fjöldi staðfestra smita er einnig mikill, einnig fengið að gera.
Það er afar misjafnt á milli landa hvernig útgöngubönn og aðrar takmarkanir hafa haft áhrif á börn.
Danir hófu þannig skólastarf aftur í byrjun þessarar viku og Norðmenn stefna að því að opna skólana eftir helgi. Sum ríki hafa byggt á niðurstöðum rannsókna sem sýna að ung börn séu ólíkleg til þess að veikjast og því ólíklegir smitberar veirunnar, eins og til dæmis Íslendingar.
En ekki Spánverjar. Þar vilja menn fara með öllu að gát og yfirvöld styðjast við ráð sérfræðinga sem segja börn þekkta smitbera allskyns sjúkdóma.
Salvador Illa, heilbrigðisráðherra landsins, sagði á mánudag að áfram yrði nauðsynlegt að halda börnunum inni, þar til það yrði talið öruggt að hleypa þeim út. Hann sagði stjórnvöld vera meðvituð um fórnina sem í þessu fælist, en ráðuneyti hans hefur skipað starfshóp barnalækna til þess að meta möguleikann á því að aflétta innilokun barnanna.
Fá sennilega ekki að mæta í skóla fyrr en í september
Fjarkennsla var tekin upp í spænskum skólum eftir að útgöngubannið var sett á, en í umfjöllun El País kemur fram að það hafi verið mjög mismunandi eftir skólum hversu vel sú fjarkennsla gengur fyrir sig. Skólarnir hafa verið mismunandi vel tækjum búnir til þess að takast á við skyndilega fjarkennslu allra nemenda og margir nemendur, sérstaklega af fátækari heimilum, hafi ekki greiðan aðgang að góðum tækjabúnaði.
Í þessari viku hafa sérfræðingar sem stjórnvöld skipuðu í starfshóp um framhald skólastarfs lagt fram ráðleggingar til stjórnvalda um að slaufa skólaárinu án þess að nemendur stígi aftur fæti inn í kennslustofur fyrir sumarfrí. Spænsk börn munu þannig að öllum líkindum ekki mæta í skólana sína í heila fimm mánuði.
„Útgöngubannið mun ekki taka enda fyrr en liðið verður á maímánuð, og þar sem þá verður skólaárið næstum á enda, var samstaða um að það væri ekki áhættunnar virði,“ sagði Quique Bassat, faraldsfræðingur sem var í starfshópnum, í samtali við El País.
Í umfjöllun spænska miðilsins kemur fram að þegar skólarnir taki til starfa á ný muni nemendur þurfa að vera með grímur og mæta í skólann í hollum. Áfram þurfi þannig að styðjast að hluta við fjarkennslu. Enn virðist því nokkuð í að lífið komist í eðlilegt far hjá börnum á Spáni.