Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segja að flugmenn Icelandair séu ekki hærri en gerist á hinum alþjóðlega markaði sem félagið starfi heldur sambærileg og þau sem greidd eru hjá öðrum flugfélögum. Þá sé rangt að flugmenn WOW air hafi verið með mun lægri laun en flugmenn Icelandair. „Það er bæði ósanngjarnt og villandi að velta ábyrgðinni á framtíð flugfélagsins að mestu yfir á starfsfólk þess. Rekstrarvandi Icelandair er flókið samspil ytri og innri þátta og flugmenn ætla að taka þátt í að leysa úr þeim vanda með fyrirtækinu á næstu mánuðum.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem FÍA sendi frá sér í dag. Undir hana skrifar Jón Þór Þorvaldsson, formaður félagsins og varaþingmaður Miðflokksins. Tilefnið eru fréttir sem birtust í lok viku um fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair. Í Viðskiptablaðinu á fimmtudag var því haldið fram að laun flugmanna Icelandair væru 20 til 30 prósent hærri en laun flugmanna WOW air hefðu verið.
Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gær, þar sem greint var frá því að félagið ætlaði í hlutafjárútboð til að bregðast við þeirri þröngu stöðu sem það er í um þessar mundir vegna algjörs tekjufalls, kom fram að forsenda fyrir „hlutafjárútboði hjá félaginu er að tryggja samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma litið. Fyrirhugað útboð er því háð því að viðræður við stéttarfélög skili árangri.“ Þær viðræður snúast um að lækka launakostnað Icelandair.
Segjast hafa sýnt vilja í verki
Í yfirlýsingu FÍA segir að nýting flugmanna hjá Icelandair gæti verið betri en að vandann megi að stærstu leyti rekja til kyrrsetningar á Boeing 737 Max-vélum félagsins og breytinga sem gerðar hafi verið á leiðakerfi þess. „Kjarasamningar flugmanna Icelandair koma ekki í veg fyrir nýtingu starfskrafta þeirra til jafns við það sem best gerist erlendis.“
Nú þegar hafi 23 prósent flugmanna Icelandair verið sagt upp og fleiri verið boðaðar.
Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunnar í fyrra var tekjuhæsti flugstjórinn sem starfaði hjá Icelandair á árinu 2018 með 3,1 milljón króna að meðaltali í mánaðarlaun.
Vildu að fólk með yfir milljón í laun fengi fullar bætar
Fjölmargir flugmenn, og aðrir starfsmenn Icelandair, eru nú á hlutabótum. Það þýðir að íslenska ríkið greiðir hluta launa þeirra úr Atvinnutryggingarsjóði. Alls er hægt að fá 75 prósent launa sinna greiddan með þessum hætti upp á 700 þúsund krónum.
FÍA lagði til breytingartillögu við lögin áður en þau voru samþykkt. Tillagan fól í sér að hálaunafólk myndi fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur ofan á þau laun sem atvinnurekandi þeirra greiddi þeim næstu mánuði.
Í rökstuðningi félagsins sagði meðal annars að um einskonar brú til skemmri tíma væri að ræða, ekki varanlega ráðstöfun. Með því að fella út hámarkssamtölu launa og bótafjárhæða, en tiltaka einungis hámark bótafjárhæðar, myndu líkur aukast á þátttöku í úrræðinu og fleiri aðilar myndu halda starfi með þátttöku atvinnurekenda, sem að öðrum kosti myndu missa starf sitt og leggjast af fullum þunga á Ábyrgðarsjóð launa án þess að mótframlag atvinnurekenda kæmi til. „Þessi tiltekni hópur greiðir nú og hefur um langan tíma greitt af launum sínum skatta og gjöld til samfélagsins. Þeir ættu því að njóta bótaréttar til jafns við aðra í þennan stutta tíma[...]Þessi hópur launafólks greiðir hæst hlutfall skatta hvort sem miðað er við krónutölu eða hlutfall launa og því er það sanngirnissjónarmið að þetta fólk sitji við sama borð og aðrir hópar þegar kemur að rétti til bótafjárhæða.[...]Um mjög mörg verðmæt störf er að ræða. Sem dæmi má nefna störf í flugiðnaði.“
Undir umsögnina þar sem tillagan var lögð til skrifaði formaður FÍA.
Tillagan var ekki tekin til greina.