Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun voru kynnt fjölmörg mál sem snerta annan aðgerðapakka stjórnvalda vegna efnahagslegra áhrifa af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór yfir það sem var kallað „Aðgerðir 2.0“ á dagskrá ríkisstjórnarfundarins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti þrjú ný frumvörp auk uppfærðra sviðsmynda um efnahagshorfur. Fyrstu tvö frumvörpin voru annars vegar bandormur til að lögfesta þær aðgerðir sem kynntar verða síðar í dag og hins vegar nýtt fjáraukalagafrumvarp svo hægt verði að fjármagna þær. Þriðja frumvarpið kallast svo „frumvarp til laga um fjárstuðning til rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru“. Búast má við því að þar sé verið að fjalla um beinar greiðslur til þeirra fyrirtækja sem hafa þurft að loka vegna ákvarðana sem stjórnvöld hafa tekið til að berjast við útbreiðslu veirunnar.
Þetta er langt umfram það sem stjórnvöld reiknuðu með þegar hlutabótaleiðin var samþykkt á Alþingi fyrir rúmum mánuði.
Kynnt fyrir stjórnarflokkum og formönnum andstöðunnar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fjölluðu í sameiningu um ferðatakmarkanir til landsins á ríkisstjórnarfundinum en fyrir liggur að sóttvarnarlæknir hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað þar sem lagt er til að allir sem komi til landsins fari í tveggja vikna sóttkví, með örfáum og tilgreindum undanþágum.
Þá voru afgreidd frumvörp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um Matvælasjóð og Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um skiptingu fjárveitinga til lista, menningarstarfs og íþrótta á fundinum í morgun.
Eftir ríkisstjórnarfundinn var aðgerðapakkinn kynntur fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna og klukkan 13 átti að hefjast fjarfundur með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna þar sem farið yrði yfir pakkann.
Klukkan 16 í dag munu Katrín, Bjarni og Sigurður Ingi svo kynna aðgerðapakkann fyrir fjölmiðlum og almenningi á blaðamannafundi sem verður í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Einn mánuður frá aðgerðapakka eitt
Nákvæmlega mánuður er í dag frá því að ríkisstjórnin kynnt fyrsta aðgerðapakkann í Hörpu. Heildaráhrif þeirra voru sögð vera 230 milljarðar króna, en beinu nýju framlögin vegna hans voru líkast til um þriðjungur þeirrar upphæðar. Sumt þar voru verkefni sem þegar lágu fyrir, til dæmis í fjárfestingu, önnur miðuðu að því að fella niður gjöld sem væru hvort eð er ekki að fara að skila sér nema að litlu leyti, eins og afnám gistináttarskatts, og sum voru einfaldlega tekjuöflunarleiðir fyrir ríkissjóð, eins og það að heimila úttekt á séreignarsparnaði sem yrði þá skattlagður samhliða.
Aðgerðir fjármálastofnana hingað hafa því, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, fyrst og síðast snúist um að frysta afborganir af lánum viðskiptavina. Stærri fyrirtæki, sem eiga í nánu og miklu samstarfi við bankann sinn eru þar betur sett en lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru með litla eða jafnvel enga fyrirgreiðslu að jafnaði, en þurfa á henni að halda nú um stundir til að komast í gegnum það ástand sem skapast hefur vegna kórónuveirunnar.
Hin svokölluðu brúarlán, sem veitt verða með ríkisábyrgð til fyrirtækja sem hafa upplifað að minnsta kosti 40 prósent tekjufall, eru enn ekki komin til framkvæmda.
Þegar byrjað að undirbúa frekari aðgerðir
Viðmælendur Kjarnans sem þekkja til vinnunnar við aðgerðir stjórnvalda hafa flestir verið sammála um að í næstu aðgerðapökkum – sumir ráðherrar þegar byrjaðir að undirbúa þann þriðja – muni meðal annars felast að gripið verði til umfangsmeiri aðgerða til að styðja við ýmiskonar nýsköpun. Í pakkanum sem kynntur verður í dag verða þó aðgerðir sem eiga að örva slíka.
Á meðal tillagna sem rætt hafi verið um við stjórnvöld séu að fyrirliggjandi úrræði á borð við hlutabótaleiðina og frestun á skattgreiðslum verði látin ná yfir sprotafyrirtæki og að endurgreiðslur, til dæmis vegna rannsóknar og þróunar, verði hækkaðar verulega.
Tilgangurinn verður að styðja við starfsemi sem getur verið arðbær til frambúðar, þótt hún sé það ekki endilega í dag.