Þekktur kínverskur rithöfundur, Fang Fang, hefur síðustu daga þurft að þola harða gagnrýni frá löndum sínum vegna Wuhan-dagbókarinnar sem hún birti á netinu er hún var innilokuð í heimaborg sinni Wuhan, þar sem kórónuveiran á upptök sín.
Fang Fang hlaut fyrst í stað mikið lof frá Kínverjum og tugir milljóna þeirra lásu dagbókarfærslur hennar þar sem hún lýsti lífinu í borginni. En nú, eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar eru farin að beina spjótum sínum að Kínverjum og saka þá um hylmingu og slök viðbrögð við veirufaraldrinum, hafa margir snúist gegn henni. „Bravó Fang Fang. Þú ert að gefa vestrænum ríkjum skotfæri til að ráðast á Kína,“ skrifaði einn lesandi dagbókarinnar á kínverska samskiptaforritið Weibo.
Til stendur að gefa dagbók Fang Fang út á mörgum tungumálum á næstunni. Hún er 64 ára og hlaut árið 2010 virtustu bókmenntaverðlaun Kína.
Fang fór að birta dagbókarfærslur þann 23. janúar eftir að allsherjar útgöngu- og ferðabann var sett á í Wuhan. Í einni færslunni lýsti hún því hvernig íbúarnir reyndu að hjálpast að og styðja hver annan og hversu dásamlegt var að upplifa hversdagslega hluti eins og sólargeisla að lýsa upp íbúðina.
En Fang fjallaði einnig um hápólitísk mál eins og yfirfull sjúkrahúsin sem vísuðu veikum frá. Þá sagði hún frá skorti á andlitsgrímum og dauðsföllum í sinni eigin fjölskyldu.
„Vinur minn sem er læknir sagði: Staðreyndin er sú að við læknar höfum vitað um hríð að sjúkdómurinn smitast frá manni til manns, við létum okkar yfirmenn vita en samt varaði enginn almenning við,“ skrifaði Fang í einni færslunni.
Í Kína er fjölmiðlafrelsi verulega ábótavant og stjórnvöld hafa frá upphafi faraldursins reynt að stjórna fréttum og færslum á netinu um hið raunverulega ástand sem skapaðist. Því þyrsti marga Kínverja í upplýsingar og sóttu því í að lesa dagbókarfærslur Fang Fang.
En eins og fyrr segir hafa nú margir landa hennar snúist gegn henni og sagt hana framleiða fallbyssufóður fyrir óvini kínverska ríkisins. „Hversu mikið græðir þú á því að selja dagbókina?“ spyr einn lesandi og sakar Fang um að reyna að auðgast á hörmungum íbúa Wuhan.
Fang hefur svarað fyrir sig á Weibo og segist vera fórnarlamb nettrölla. Í viðtali við kínversku vefsíðuna Caixin segist hún hafa fengið líflátshótanir og að heimilisfang hennar hafi verið birt á netinu.
Bandaríska útgáfufyrirtækið HarperCollins ætlar að gefa dagbókina út í Bandaríkjunum í sumar. Það hefur farið fyrir brjóstið á mörgum Kínverjum hvernig bókin er kynnt. „Hinn blákaldi raunveruleiki hins hræðilega ástands varð til þess að Fang Fang hóf að tjá sig af miklu hugrekki gegn mismunun, spillingu, misnotkun og kerfisbundnum pólitískum vandamálum sem hindruðu viðbrögð við faraldrinum,“ segir á vefsíðu útgáfufyrirtækisins um Wuhan-dagbókina.