Á hverjum vetri ganga ýmsar pestir sem valda óþægindum á borð við hita, hálsbólgu, hósta og beinverkjum. Á öllum þeim sem fundu fyrir slíkum einkennum síðustu mánuði brennur ein spurning: Var ég með COVID-19 eða var þetta bara flensa?
Þeir sem ekkert veiktust eru mögulega að hugsa það sama því við vitum að þeir sem sýkjast af veirunni geta verið einkennalitlir og jafnvel einkennalausir.
Það er ekki af einskærri forvitni sem fólk er að velta þessu fyrir sér. Góðar ástæður eru fyrir því, bæði fyrir fólk og samfélög, að vita hverjir hafi sýkst og hverjir ekki. Helst ber að nefna að hafi fólk fengið COVID-19 er það komið með mótefni fyrir veirunni sem sjúkdómnum veldur. Þar með er það í lítilli hættu að sýkjast af henni aftur, nema að hún stökkbreyti sér eins og árstíðabundnar inflúensuveirur gera gjarnan. „Kórónuveirur eru hins vegar ekki þekktar fyrir að gera það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Kjarnann. „En hvort þessi veira mun haga sér öðruvísi er ekki vitað.“
Nýja kórónuveiran SARS-CoV-2 er nefnilega ólíkindatól og virðist haga sér að ýmsu leyti öðruvísi en aðrar henni skyldar. Og af því að hún er svo ný, svo framandi, hefur ekki ennþá tekist að búa til örugg mótefnapróf. Rannsóknir á ýmsum mótefnaprófum er þó í fullum gangi í fjölmörgum löndum, meðal annars hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Enn sem komið er verður því bið á því að áreiðanlegar mótefnamælingar standi Íslendingum almennt til boða en vonandi verður það á næstunni.
Vafi um lengd verndar
Ofan á allt saman leikur svo vafi á því hversu lengi það ónæmi mun vara. „Af því að þetta er ný veira þá vitum við ekkert um það ennþá hversu lengi mótefnið mun vernda okkur,“ segir Þórólfur. „Skapast langtímavernd eða skammtímavernd? Það verður tíminn að leiða í ljós.“
Stjórnvöldum er mikið í mun að fá úr því skorið hversu margir hafi raunverulega sýkst af veirunni sem valdið hefur sögulegum áhrifum á hagkerfi og samfélög heims. Vonast er til að niðurstöður úr mótefnamælingum geti nýst til að skipuleggja afléttingu ýmissa takmarkana – koma hinum umtöluðu hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Að þær sé hægt að nota til að „endurræsa lífið að nýju“ eins og Andre Cuomo, ríkisstjóri í New York, sagði nýverið. Þar vegur þyngst fjöldi þeirra sem hefur smitast.
Þær öflugu aðgerðir sem beitt hefur verið hér á landi hafa gert það að verkum að líklega hefur aðeins um eitt prósent íslensku þjóðarinnar sýkst. Um 99 prósent hennar eru því móttækileg fyrir sýkingunni. Það eru ansi margir líkamar sem veiran getur komið sér fyrir í, fái hún tækifæri til þess.
En byrjum á byrjuninni.
Hvað er mótefni og hvernig myndast það?
Þegar einstaklingur sýkist, hvort sem það er af völdum veiru eða bakteríu, þá bregst ónæmiskerfi líkamans við og reynir að vinna á henni. „Margar frumur ræsast og það losna alls konar efni sem miða að því að vernda okkur,“ útskýrir Þórólfur. Eitt af því mikilvæga sem ónæmiskerfið gerir við þessar aðstæður er að mynda mótefni, ýmis sérhæfð prótín, sem snúast gegn veirutegundinni sem veldur sýkingu hverju sinni.
Ef líkaminn kemst svo aftur í tæri við sömu veiru þá bindast mótefnin henni og gera hana óskaðlega. Þar með verður engin sýking.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt kerfi,“ segir Þórólfur. „Það sama gerist við bólusetningu, þá myndast mótefni sem verndar mann svo áfram.“
En málið er ekki alveg svona einfalt.
Mótefni er nefnilega ekki eintöluorð. Það myndast fjölmörg mótefni í líkamanum fyrir hverri og einni veiru og sum eru meira verndandi en önnur.
Og þar liggur hundurinn grafinn. Hvaða mótefni eru verndandi og hver ekki? Og er víst að það mótefni sem mælist sé akkúrat það sem myndaðist vegna tiltekinnar veiru ?
Út á þetta gengur þróun mótefnaprófa – að finna aðferð til að meta og mæla það mótefni sem er að veita okkur vernd fyrir endurtekinni sýkingu.
Mótefnin myndast í líkamanum á mismunandi tíma. Sum myndast fljótt eftir að sýkingar verður vart og hverfa sömuleiðis fljótt. Önnur myndast á nokkrum vikum en endast þá að sama skapi miklu lengur.
Ýmsum og ólíkum aðferðum er beitt við að mæla mótefni. Þær geta verið mismunandi nákvæmar og næmar. Sumar ná ekki að nema öll mótefni og geta gefið þá niðurstöðu að mótefni sé ekki til staðar þó að það sé það. Aðrar aðferðir geta svo gefið þveröfuga niðurstöðu: Nema mótefni þegar það er ekki fyrir hendi. Hvoru tveggja er auðvitað jafn slæmt.
Aðrar sýkingar geta truflað mælingu
Ýmislegt getur að sögn Þórólfs truflað mælinguna, til dæmis fyrri sýkingar af völdum annarrar veiru eða sýking af skyldri veiru. „Prófin geta þá verið að sýna jákvæða en falska niðurstöðu,“ segir Þórólfur. „Vandamálið við þessa tilteknu veiru er að hún er ný og það verður að búa til ný próf. Það þarf svo að sannreyna þau og ganga úr skugga um að þau gefi rétta niðurstöðu.“
Nokkur lönd eru farin að mótefnamæla og ríkisstjóri New York greindi frá því í fyrradag að samkvæmt niðurstöðum slíkra mælinga þar hefði einn af hverjum fimm íbúum New York-borgar smitast af veirunni. Mun fleiri en áður var talið.
Að sögn Þórólfs verður að taka þessum niðurstöðum sem og öðrum af sama toga með fyrirvara. Í sama streng hafa sérfræðingar í smitsjúkdómum í New York tekið. Prófin séu ekki enn nógu áreiðanleg.
Ein skýringin er sú að það getur verið mismunandi hversu mikið mótefni mælist í líkamanum eftir því hvort viðkomandi sýndi mikil eða lítil einkenni á meðan hann var sýktur. „Það eru merki um það að þeir sem að veikjast mikið framleiði meira af mótefnum heldur en þeir sem veikjast lítið eða nánast ekki neitt,“ bendir Þórólfur á. Þetta er meðal niðurstaðna mótefnarannsókna sem Íslensk erfðagreining hefur þegar unnið.
Að sögn Þórólfs er þetta nokkuð óvenjulegt en gæti skýrst af því að ekki er enn búið að finna almennilega út hvaða mótefni sé best að mæla.
Í mótefnamælingum Íslenskrar erfðagreiningar er stuðst við misjafnar aðferðir í þessum tilgangi. „Þau hafa verið að rannsaka blóð úr fólki hér á landi, bæði úr þeim sem sýkst hafa mikið og lítið. Og þau eru akkúrat að sjá þetta: Að það er mismunandi svar eftir því hvort fólk hefur veikst mikið eða lítið. Einnig að það getur tekið langan tíma frá sýkingu og þar til mótefni eru að mælast.“
Þó að fullkomin mótefnapróf séu ekki fyrir hendi í augnablikinu ætla íslensk heilbrigðisyfirvöld að hefja söfnun blóðsýna fljótlega. Mótefnamæling verður framkvæmd á þeim og hún svo jafnvel endurtekin seinna með öðrum prófum.
„Við munum halda áfram mótefnarannsóknum og reyna að finna hvaða aðferð er best,“ segir Þórólfur. „Og þegar við finnum bestu lausnina þá getum við beitt henni á þau blóðsýni sem hafa safnast en það er enn eitthvað í það að við fáum áreiðanlegar niðurstöður úr þeim.“
Að þessu sögðu er ljóst að mótefnamæling á þessari stundu getur ekki nýst til að votta það að einstaklingur hafi sýkst og sé nú varinn. Rætt hefur verið um að gefa út ónæmispassa eða vottorð til fólks sem auðveldi því að ferðast, mæta til vinnu og hverfa aftur til annarra hefðbundinna lifnaðarhátta. Engin vinna í þá átt er hafin hér á landi og Þórólfur er ekki viss að af þessu verði yfir höfuð. „Eins og staðan er núna þá er að minnsta kosti töluvert í það. Það hafa líka vaknað ýmsar siðferðislegar og lögfræðilegar spurningar í þessu sambandi svo þetta yrði alltaf snúið í framkvæmd.“
Þórólfur gerir sér grein fyrir því að margir bíða í ofvæni eftir að mótefnamælingar hefjist. „En áður en við förum að gera það verðum við að vita hvort hægt sé að treysta þeim. Fyrir marga er erfitt að lifa í óvissunni en ef niðurstöður prófa eru óöruggar slá þau ekki á óvissuna hjá fólki heldur þvert á móti.“