Ferðaþjónustan, sem hefur staðið undir bættum lífskjörum á Íslandi síðasta áratug, þarf núna aðstoð svo að hún geti komist út úr yfirstandandi hremmingum sem atvinnugrein, „það er að segja að við höldum lífi í þeirri atvinnugrein sem við höfum byggt upp,“ sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í Silfrinu á RÚV í morgun.
Ferðaþjónustufyrirtæki hafa mörg hver nýtt sér hlutabótaleiðina svokölluðu, lækkað starfshlutfall starfsfólksins í stað þess að segja því upp. Um 20% þeirra sem fá hlutabætur hjá Vinnumálastofnun eru að vinna í ferðaþjónustu og um 20% til viðbótar eru að vinna hjá fyrirtækjum sem tengjast ferðaþjónustu með einhverjum hætti.
En meira þarf að koma til að sögn Jóhannesar. „Fyrirtækin eru þannig stödd að lausafé er af gríðarlega skornum skammti. Þau munu þurfa að fá aðstoð við það að greiða uppagnarfrest. Það sem þau þurfa er einfaldlega að geta lagst í híði, lagst í dvala, og [geta svo] kveikt upp í atvinnugreininni aftur þegar ferðamenn fara að koma hingað á ný.“
Hann á ekki von á því að ferðamennska taki við sér fyrr en að ári.
Jóhannes segir verkefnið, eins og hann vilji sjá það, risavaxið, það velti á nokkrum tugum milljarða. „En það sem við þurfum að horfa á þegar við nálgumst svona verkefni er ekki nákvæmlega hvaða kostnað við erum að leggja í núna heldur hvaða samfélagslega kostnað við erum að reyna að koma í veg fyrir á hinum endanum.“
Þegar heimskreppa skelli á gangi ekki að skoða „eitthvað mjatl“. Horfa verði til þess hvernig þjóðin vilji komast út úr henni og hvernig þau lífskjör sem hér hafi skapast verði varðveitt. „Það er mikilsvert ef það tekst að stytta þann tíma og fækka þeim fjölda sem þarf að vera á atvinnuleysisbótum um lengri tíma. Það þýðir það að við þurfum að hafa ferðaþjónustuna á lífi sem atvinnugrein, ekki bara fyrirtæki á stangli. Þannig að hún geti kveikt á sér aftur, fengið fólkið aftur inn í vinnu og farið að búa til verðmæti.“
Gjaldþrotaeldurinn brennir upp fjárfestingar
Málið snúist um hvort að það þurfi að byrja á „núlli“ eftir fjöldagjaldþrot í greininni eða hvort við getum „byrjað frá einhverjum stökkpalli þar sem okkur hefur tekist að varðveita þau verðmæti sem hafa verið sköpuð, þær fjárfestingar sem lagt hefur verið í. Til þess að hafa tröppu til að stíga upp af. Vegna þess að ef of stór hluti þessarar atvinnugreinar fer einfaldlega í gjaldþrotaeldinn, það brennir upp fjárfestingar. Það tapast reynsla og þekking hjá fólki sem hefur lagt í þetta líf og sál“.
Hann segir að þó eignir á borð við hús og bíla færist annað við gjaldþrot og tapist ekki í þeim skilningi, þá geti tekið tíma að byggja starfsemi upp að nýju. „Að byrja frá núlli tekur mikli lengri tíma.“
Að byrja upp á nýtt geti tekið 5-7 ár en að kveikja á fyrirtæki úr dvala kannski 1-3 ár. „Þetta skiptir öllu máli um þann samfélagslega kostnað sem við sem þjóðfélag erum að fara að leggja í.“
Ef þjónusta verður ekki til staðar þegar ferðamenn fara aftur að koma þá fara þeir eitthvað annað, „að skoða norðurljós í Noregi eða Kanada“.
Jóhannes segir viðræður við stjórnvöld í gangi um leiðir, „og ég ætla nú bara að vera bjartsýnn áfram þrátt fyrir allt og hef trú á því að það muni finnast leiðir sem að eru nauðsynlegar. [...] Ef ekkert verður að gert erum við að taka ákvörðun um að fórna hér lífskjörum fólks inn í framtíðina.“
Segist hann leggja mikla áherslu á að úrræði verði fundin fyrir næstu mánaðamót.