Óttast er að önnur og þriðja bylgja dauðsfalla eigi eftir að skella á Bretlandi vegna heimsfaraldursins. Þau dauðsföll verða ekki af völdum COVID-19 sjúkdómsins heldur meðal fólks sem er með aðra sjúkdóma og fær ekki eða veigrar sér við að nálgast nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
Breskir vísindamenn segja allt of snemmt að aflétta takmörkunum þar í landi enda deyja enn hundruð manna á degi hverjum vegna COVID-19. Í gær var talan komin yfir 20 þúsund. Inni í henni eru þó aðeins dauðsföll sem verða á sjúkrahúsum en ekki þau sem verða á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsum af völdum sjúkdómsins.
Vísindamennirnir, sem meðal annars eru ríkisstjórninni til ráðgjafar, segja það valda vonbrigðum hversu hægt faraldurinn gangi niður. „Við verðum að ná tilfellum [sýktra] niður í nokkur hundruð á dag áður en við getum aflétt takmörkunum,“ segir Keith Neal, prófessor við Nottingham-háskóla í dagblaðinu Guardian í dag. „Og það gæti tekið marga mánuði.“
Utanríkisráðherra Bretlands, Dominic Raab, sem hefur verið staðgengill forsætisráðherra síðustu vikur, segir að fjöldi dauðsfalla í landinu vegna faraldursins sé „átakanlegur“ en að þau hefðu orðið enn meiri ef ekki hefði verið gripið til harðra aðgerða. Hann gaf í skyn í viðtali í dag að skólar og fyrirtæki gætu opnað aftur bráðlega en „í nýjum veruleika“. Þegar skólar yrðu opnaðir yrði að halda fjarlægðarmörkum og fjöldatakmörkunum til verndar starfsfólki og nemendum.
Það var nauðsynlegt að hætta valkvæðum aðgerðum og forgangsraða grimmt á sjúkrahúsum í Bretlandi vegna faraldursins. En dauðsföllum annarra en COVID-sjúkra fjölgar nú hratt og gætu þau jafnvel orðið fleiri en þau sem kórónuveiran veldur að því er fram kemur í greiningu Edge Health, stofnunar sem veitir meðal annars breskum heilbrigðisyfirvöldum ráðgjöf á sviði upplýsingamála. Í greiningunni segir að ef ekki verði fundnar „róttækar lausnir“ til að veita á nýjan leik hefðbundna heilbrigðisþjónustu og stytta biðlista gæti breska heilbrigðiskerfið í versta falli neyðst til að innleiða fyrirfram ákveðna forgangsröðun.
Önnur bylgjan er þegar brostin á að mati stofnunarinnar. Fórnarlömb hennar eru fólk með aðra sjúkdóma en COVID-19 sem fær ekki heilbrigðisþjónustu eða treystir sér ekki til að sækja hana vegna ástandsins. Edge Health-stofnunin áætlar, miðað við gögn frá heilbrigðiskerfinu, að þegar hafi um 10 þúsund manns látist af þessum sökum – um 2.000 á viku að undanförnu, segir í frétt Daily Telegraph. Margir deyja heima hjá sér. Aðrir komast ekki á sjúkrahús í tæka tíð, segir í fréttinni.
Þriðja bylgjan gæti varað í langan tíma
Stofnunin óttast að þessi önnur bylgja dauðsfalla muni viðhaldast svo lengi sem sjúkrahúsin verða að einbeita sér fyrst og fremst að faraldrinum. Hún skall á þrátt fyrir að breskir læknar hafi ítrekað sagt að allir sem á þurfi að halda fái bráðaþjónustu.
Þriðja bylgjan mun ríða yfir ef flöskuhálsinn í heilbrigðiskerfinu verður viðvarandi næstu mánuði. Fórnarlömb hennar verður fólk sem er komið með krabbamein og hjartasjúkdóma, svo dæmi séu tekin, en hefur ekki fengið greiningu vegna ástandsins. Þetta er fólkið sem á að hafa greiðan aðgang að heimilislæknum sem vísar því svo áfram til meðferða. Í frétt Telegraph segir að ýmsar rannsóknir sem notaðar eru til að greina sjúkdóma liggi niðri vegna faraldursins.
Edge Health-stofnunin varar við því að áhrifa þriðju bylgjunnar geti varað í langan tíma. „En eitt er víst hún gæti verið banvæn,“ hefur Telegraph eftir George Batchelor, einum stofnanda Edge Health.
Áður en faraldur COVID-19 skall á hafði mikill niðurskurður átt sér stað í breska heilbrigðiskerfinu og mantran um „skilvirkni“ ómaði um ganga allra sjúkrahúsa. Getan til að takast á við aukið álag var því ekki fyrir hendi. Stjórnvöld hafa bent á að álag á bresku sjúkrahúsin hafi ekki verið jafn slæmt og það sem þau ítölsku þurftu að þola. Aðrir hafa svo aftur bent á að það hafi gerst á kostnað hefðbundinnar læknisþjónustu, s.s. milljóna rannsókna, skoðana og meðferða sem annars hefðu átt sér stað.
Greint hefur verið frá því í breskum miðlum að gripið hafi verið til þess að flytja mikið veika sjúklinga frá sjúkrahúsunum og inn á hjúkrunarheimili til að rýma fyrir COVID-sjúklingum. Það hefur stundum haft hræðilegar afleiðingar í för með sér.
Tveimur milljónum aðgerða þegar frestað?
Á meðan allt þetta er að eiga sér stað er veldisvöxtur á biðlistum eftir aðgerðum, greiningum og meðferðum.
Í hverjum mánuði eru, í eðlilegu ástandi, framkvæmdar um 700 þúsund aðgerðir í Bretlandi. Því er líklegt að yfir tveimur milljónum slíkra aðgerða hafi þegar verið frestað sem bætast þá við biðlista sem voru fyrir.
Þar sem óvissan er mikil og ekki er vitað hvenær faraldurinn gengur niður eru ekki margar leiðir í boði. Mögulega væri hægt að auka afkastagetu kerfisins og hefur m.a. verið litið til einkageirans í því sambandi. Skurðstofurnar eru þar fyrir hendi en spurningin er hins vegar hvort hægt sé að manna þær.
Annar valkostur er vart boðlegur en hann er sá að yfirvöld forgangsraði þeim sem fá heilbrigðisþjónustu.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun mæta aftur til vinnu á morgun, mánudag. Hann greindist með COVID-19 í byrjun apríl, veiktist í kjölfarið alvarlega, og hefur verið frá störfum um hríð. Hann er sagður vera undir miklum þrýstingi frá félögum sínum í Íhaldsflokknum sem ýmist vilja hefja afléttingu takmarkana strax svo bjarga megi efnahagnum eða herða þær enn frekar og freista þess að bjarga mannslífum.
Trú Breta á aðgerðum stjórnvalda vegna faraldursins hefur farið dvínandi undanfarið. Því var lofað fyrir nokkru að tekin yrði 100 þúsund sýni á dag en það hefur engan veginn gengið eftir. Í heildina hafa verið tekin um 650 þúsund sýni og á föstudag voru sýnatökurnar tæplega 29 þúsund.
Stjórnarandstaðan kallar eftir áætlunum um framhaldið. „Breskur almenningur hefur fært gríðarlegar fórnir svo að aðgerðir stjórnvalda hafi orðið að veruleika. Hann á rétt á því að hafa aðkomu að því sem gerist næst. Ef við viljum hafa alla með og tryggja að allir fylgi, þá verður að gera þetta núna,“ skrifaði Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins.