Nú styttist í 4. maí þegar fyrstu afléttingar á aðgerðum sem hafa verið íþyngjandi fyrir marga hefjast. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir að því sé tímabært að velta þeirri hugmynd fyrir sér að öll þjóðin geri með sér samfélagslegan sáttmála, sáttmála um hvernig við ætlum að haga okkur næstu vikur og mánuði.
Sáttmálinn yrði þá „eitthvað sem við viljum öll halda í heiðri, vera öll saman í, allt samfélagið,“ sagði hann á upplýsingafundi almannavarna í dag. Nefndi hann sem dæmi að með sáttmálanum gæti fólk lofað því að sinna handþvotti vel, sótthreinsa og spritta hendurnar og sameiginlega snertifleti, vernda áfram viðkvæma hópa, gefa kost á tveggja metra fjarlægð, halda áfram sýnatökum, að beita sóttkví og einangra smitaða – og veita áfram góða heilbrigðisþjónustu. Nefndi hann líka að upplýsingamiðlun yrði áfram góð og að fólk notaði fréttir frá traustum, ritstýrðum fréttamiðlum, til að afla sér upplýsinga.
Þá sé mikilvægt að við sýnum þeim skilning sem misstíga sig í aðgerðunum. „Við munum öll misstíga okkur,“ sagði Víðir. „Við skulum leiðbeina þeim sem það gera og á kurteislegan hátt. Og vera góð við hvort annað.“
Sagði Víðir að hann teldi slíkan samfélagslegan sáttmála mikilvægan samhliða því að aðgerðum verður aflétt í skrefum frá 4. maí. „Eina leiðin er að vinna þetta saman.“
Minnti hann á að áhrif faraldursins væru um allan heim og að aðgerðir annarra hafi áhrif á okkur. „Þetta er samfélagslegt verkefni allra samfélaga, verkefni alls mannkyns. Við erum öll í þessu saman. Við þurfum líka að passa okkur á því í þessari vinnu að við skiljum engan eftir útundan.“