Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að það sé skynsamlegt að íslenska ríkið taki þátt í að fjármagna uppsagnarfrest starfsmanna Icelandair Group. Þetta kemur fram í samtali við hann í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir hann þó að það komi ekki til greina að ríkið gerist hluthafi í Icelandair Group, en að það megi hugsa sér að ríkissjóður veiti víkjandi lán til félagsins, samhliða því að hluthafar þess og lánadrottnar komi „að borðinu sömuleiðis.“
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, lýstu því báðir yfir í gær í þættinum Víglínunni á Stöð 2 að stjórnvöld ættu að hafa frumkvæði að því að lýsa því yfir að þau muni koma Icelandair til aðstoðar.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenska atvinnuflugmanna (FÍA), sagði við RÚV í gær að viðbúið sé að um 90 prósent af starfsmönnum Icelandair Group missi vinnuna. Fjöldi stöðugildi hjá Icelandair Group var að meðaltali 4.715 á árinu 2019.
Það hefur verið í frjálsu falli og fór niður í 2,5 krónur á hlut sem þýddi að markaðsvirði fyrirtækisins var þá komið í um 13,6 milljarðar króna. Verðið á hlut í Icelandair hefur ekki verið lægra síðan á árinu 2009. Hæst reis hlutabréf í Icelandair Group í apríl 2016 og fór þá í 191,5 milljarð króna.
Von á fjöldauppsögnum í þessari viku
Icelandair Group er sem stendur að fljúga um fimm prósent af ætlaðri flugáætlun sinni og hratt gengur á eigið fé félagsins þar sem það greiðir enn hluta af launum þeirra starfsmanna sem eru á hlutabótaleiðinni. Fyrir liggur að ef Icelandair Group segir upp nokkur þúsund starfsmönnum og lítið eða ekkert rofar til í tekjuöflun félagsins næstu mánuði, að það verði í erfiðleikum með að greiða upp uppsagnarfrest allra og eiga enn nægt laust fé til að fara ekki undir það viðmið sem félagsins starfar eftir, en stefna þess hefur verið sú að þessi staða fari ekki undir 200 milljónir Bandaríkjadala á hverjum tíma.
Icelandair Group sagði upp 240 manns fyrir skemmstu og 92 prósent eftirstandandi starfsmanna þess voru fluttir í hlutabótaúrræði stjórnvalda, þar sem allt að 75 prósent af greiddum launum koma úr ríkissjóði.
Á miðvikudag sendi félagið frá sér tilkynningu þar sem kom fram að það myndi segja upp fleira fólki og breyta skipulagi félagsins í þessum mánuði. Því er ljóst að greint verður frá umfangi uppsagnanna í þessari viku.
Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að stjórnendur Icelandair væru nú að leita leiða til að styrkja fjárhag félagsins til lengri tíma. Félagið réð Kviku banka, Íslandsbanka og Landsbankann sem ráðgjafa til að hefja skoðun á mögulegum leiðum til að ná því markmiði. Þá var greint frá því að stjórnendur Icelandair myndu vinna náið með íslenskum stjórnvöldum í því ferli.
Icelandair Group tilkynnti svo í þar síðustu viku að félagið ætli að ráðast í hlutafjárútboð á næstunni og sækja með því aukið rekstrarfé til hluthafa sinna. Stjórnvöld hafa enn ekki boðað neina beina aðkomu sína að þessum björgunaraðgerðum.