Miklar breytingar hafa orðið á högum mannsins um heim allan eftir að COVID-19 faraldurinn braust út. Samkomubann hefur orðið til þess að fólk hefur þurft að finna leiðir til að sinna vinnu að heiman og má sjá að dregið hefur út losun gróðurhúsalofttegunda í kjölfarið.
Guðmundur Ingi Guðbandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir í samtali við Kjarnann að ef fyrirtæki eða stofnanir séu í þeirri stöðu að starfsmenn þeirra þurfi ekki að mæta alla daga á vinnustaðinn þá skuli nýta það tækifæri.
„Eitt af því sem við þurfum að gera er að draga úr umferð. Það er alveg ljóst. Ég held að við getum lært eftir þennan tíma að fólk getur unnið heima einn dag í viku, jafnvel tvo daga í viku, á sumum vinnustöðum. Fólk og fyrirtæki geta hugsað á skapandi hátt hvernig hægt sé að skipuleggja starfið til þess að þetta sé mögulegt. Og þannig myndi draga varanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum,“ segir hann.
Hvatar í „græna átt“ þurfa að vera til staðar
Þetta eigi jafnframt við um ferðir erlendis sem muni enn meira um. „Þannig að bæði það sem snýr að skipulagi hjá fyrirtækjum og stofnunum og lífi okkar einstaklinganna þá held ég að þetta hafi sýnt okkur það að við getum svo sannarlega stigið einföld skref sem skipta miklu máli. Þetta er náttúrulega það sem snýr að daglegu lífi. Svo þurfa líka að eiga sér stað kerfisbreytingar þar sem hið opinbera ýtir við nýsköpun, beitir hvötum og styrkjum og fyrirtæki og atvinnulíf fjárfesta í loftslagsvænum lausnum og þróun, sem færir okkur nær umhverfisvænni heimi.“
Hann segir að það verði áskorun fyrir fyrirtæki hvað varðar fjárfestingar út af þeirri efnahagslægð sem er gengin í garð en þá sé mikilvægt að hvatar séu til staðar til þess að fjárfestingin fari í grænni átt. „Við höfum náttúrulega verið að setja inn ákveðna hvata hvað varðar til dæmis orkuskipti og mun meira fjármagn í nýsköpun sem munu nýtast núna í framhaldinu. Við þurfum að skoða hvata líka fyrir fleiri geira.“
Hægt er að lesa ítarlegt viðtal við Guðmund Inga hér.