Gríðarlega gott veður var um helgina víðsvegar um landið og bar eitthvað á því að fólk hópaði sig saman. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag að þau hefðu ákveðnar áhyggjur af þessu en að erfitt væri að grípa til einhverra sérstakra aðgerða.
„Við auðvitað höldum áfram að tala um að við erum ennþá að benda fólki á að virða tveggja metra regluna og að vera ekki að safnast saman í stóra hópa,“ segir hann.
Höfða til skynseminnar
Nú eru bráðum tvær vikur síðan „4. maí-tillögurnar“ voru kynntar og segir Víðir að þau hafi fundið fyrir því að þær tillögur hafi losað ýmislegt í hegðun fólks. „Þegar við sjáum hvort við fáum einhverjar hækkandi tölur þá þurfum við auðvitað að grípa til aðgerða en núna erum við bara að höfða til skynsemi fólks.“
Víðir segir enn fremur að auðvitað vilji þau að fólk fari út, njóti lífsins og nýti veðrið. „Það er nú ekki á hverjum degi sem við fáum svona daga eins og við vorum með um helgina. Það er bara æðislegt að sjá hvað margir notuðu tækifærið.“
Á sama tíma hvetur hann fólk til þess að fara varlega.