„COVID-19 er sjúkdómur sem við komum til með að búa við í langan tíma,“ sagði Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, á daglegum blaðamannafundi í dag. 107 dauðsföll voru í landinu á einum sólarhring og tæplega 2.500 hafa látist frá upphafi faraldursins. Á heimsvísu hafa yfir 210 þúsund manns látist vegna COVID-19 ef marka má opinberar tölur. „Þetta eru mjög háar tölur. Svo stórar tölur er erfitt að meðtaka,“sagði Tegnell og að slíkan fjölda látinna af völdum sjúkdóms væri eitthvað sem ekki hefði sést í veröldinni í langan tíma.
„Þetta er langt í frá búið,“ sagði hann á fundinum og þó að Svíum hefði tekist að komast hjá of miklu álagi á heilbrigðiskerfið þyrfti áfram að fara að öllu með gát. „Það er mörgum sem finnst þetta erfitt en við verðum að muna að við komumst á þennan stað af því að margir lögðu sig mikið fram. Við megum ekki hætta því núna, þetta er langt í frá búið. Þetta er veira sem mun örugglega finna leið til að vera með okkur í langan tíma.“
Stokkhólmur hefur orðið langverst úti í faraldrinum í landinu. Þar er mikið álag á sjúkrahúsum.
Nú eru vísbendingar um að veiran sé farin að breiðast út til annarra svæða. Í bæði Halland og Värmland hefur fjöldi smita vaxið hratt síðustu daga. Tegnell segir þetta þó geta skýrst af því að fleiri sýni eru nú tekin en áður.
Á blaðamannafundi dagsins var Tegnell spurður út í dauða ungs fólks af völdum veirunnar, fólks sem hefði enga undirliggjandi sjúkdóma. Hann sagði unga fólkið sem hefur látist í Svíþjóð ekki virðast eiga neitt sameiginlegt í heilsufarslegu tilliti. „Þetta er auðvitað mjög sorglegt en þetta er að gerast í öllum löndum og má sjá í öllum sýkingum. Við vitum ekki af hverju þetta gerist og ekki finnst neinn samnefnari hjá þessum hópi.“
Leiðir yfirvalda í Svíþjóð í baráttunni við faraldur kórónuveirunnar hafa vakið athygli og verið umdeildar. Tegnell er sá sem talar fyrir aðgerðunum en ekki stjórnmálamenn. Sama leið var farin á Íslandi en víðast annars staðar eru það stjórnmálamennirnir sem koma fram í fjölmiðlum, tilkynna um næstu skref og aðgerðir.
Samfélagið ekki stöðvað
Síðustu daga hefur vorveðrið leikið við Svía og yngri kynslóðir hafa þyrpst út á götur, bari og kaffihús til að fagna sumarkomunni. Já, á bari og kaffihús. Í Svíþjóð hefur nefnilega ströngum aðgerðum verið stillt í mikið hóf. Landamærin eru opin eins og áður, veitingastaðir og barir sömuleiðis, almenningsgarðarnir eru einnig opnir og sömuleiðis leik- og grunnskólar. Lestir og strætisvagnar ganga sínar leiðir venju samkvæmt.
Það þýðir samt ekki að ekkert hafi verið gert. En fyrst og fremst stóla yfirvöld, þar á meðal Tegnell, á hið mikla traust sem Svíar hafa á stofnunum, yfirvöldum og hver öðrum. Boð og bönn hafa því verið minni en í flestum nágrannaríkjunum í faraldrinum. Yfirvöld litu hins vegar svo á að Svíum væri treystandi til að ákveða að halda sig heima, passa upp á nálægð við aðra og stunda ítarlegan handþvott. Engar tilskipanir þyrftu. Ekki nema örfáar, m.a. að banna samkomur fleiri en fimmtíu manna, aflýsa íþróttaviðburðum og loka söfnum.
Þó að mun fleiri hafi látist í Svíþjóð en á hinum Norðurlöndunum eru þær á pari við dánartölur á Írlandi þó að þar hafi snemma verið gripið til mun harðari aðgerða.
En samanburður á tölum er varasamur. Þjóðir eru á misjöfnum stað í kúrfunni frægu, faraldurinn kom fyrr til sumra landa en annarra. En miðað við þróun talna í hverju Norðurlandanna fyrir sig þá sést að Svíþjóð er enn á hátindi faraldursins á meðan hann er á mikilli niðurleið hjá hinum.
Síðasta sunnudag var þéttsetið á kaffihúsum í Stokkhólmi. En ungt fólk var í miklum meirihluta. Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa enda viðurkennt að eldri borgarar hafi orðið illa úti og að veiran hafi greinst hjá íbúum á flestum öldrunarheimilum borgarinnar. Starfsmenn á þeim hafa einnig kvartað undan skorti á hlífðarfatnaði. Mikill meirihluti þeirra sem hefur látist er yfir sjötugt eða um 86 prósent. Það er ekki ólíkt því sem gerst hefur í mörgum öðrum löndum en engu að síður hefði dánartalan getað verið lægri. Það er til að mynda skoðun 22 vísindamanna sem rituðu opið bréf til sóttvarnalæknis og sökuðu yfirvöld um vanrækslu.
Þrátt fyrir að hjól atvinnulífsins í Svíþjóð hafi snúist að ýmsu leyti eins og ekkert hafi í skorist, nudd-, snyrt- og hárgreiðslustofur hafa til dæmis ekki þurft að loka, þá mun verða samdráttur í efnahagslífinu, m.a. vegna þess að Svíar reiða sig á útflutningstekjur. Þá verða áhrifin af samdrætti í ferðaþjónustu svipuð þar og annars staðar.
Tegnell neitar því að tilgangurinn með því að stöðva ekki samfélagið líkt og aðrar þjóðir gerðu hafi verið sá að ná hinu umtalaða hjarðónæmi, að um 60 prósent þjóðarinnar smitist. „Við vorum að reyna að gera það sama og flest önnur lönd, að hægja á útbreiðslu eins mikið og hægt var,“ segir Tegnell í samtali við New York Times.„Málið er að við notum bara aðeins önnur verkfæri til þess en margir aðrir.“
Yfirvöld bönnuðu ekki heimsóknir á öldrunarheimili fyrr en í lok mars. Áður en að því kom höfðu forstöðumenn heimilis í nágrenni Stokkhólms tekið sjálfstæða ákvörðun um að banna heimsóknir. Því var ekki vel tekið af yfirvöldum sem gengu svo langt að krefjast þess að skilti sem á stóð „engir gestir“ yrði fjarlægt. Forstöðumaðurinn neitaði og sagðist frekar fara í fangelsi. Hið almenna heimsóknarbann kom svo of seint. Þá hafði veiran læðst inn á heimilið og ellefu íbúar látist.