Vesturverk ehf. hefur sagt upp starfsfólki sínu og verður skrifstofu fyrirtækisins á Ísafirði lokað. Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmdastjóri og einn stofnenda fyrirtækisins, hættir í sumar. Hann mun þó sitja áfram í stjórn.
Þetta kemur fram í frétt á vef Bæjarins besta. Þar er vitnað í tilkynningu frá fyrirtækinu þar sem segi að í ljósi markaðsaðstæðna og fyrirsjáanlegrar óvissu hafi verið samþykkt á hluthafafundi Vesturverks ehf. 30. apríl að fela stjórn félagsins að draga tímabundið úr starfsemi félagsins.
Áfram verður unnið að rannsóknum vegna virkjunarkosta sem félagið vinnur að, þar með talið Hvalárvirkjun og skipulagsbreytingum. Í fréttatilkynningunni segir að þótt um sársaukafullar aðgerðir sé að ræða séu þær nauðsynlegar til þess að tryggja áframhaldandi rekstur og viðgang verkefna félagsins til framtíðar.
HS Orka er meirihlutaeigandi Vesturverks. Bæjarins besta hefur eftir Jóhanni Snorra Sigurbergssyni, forstöðumanni viðskiptaþróunar hjá HS Orku, að aðstæður á markaði hefðu breyst síðustu mánuði og eftirspurn eftir rafmagni minnkað. Einnig nefnir hann að verð á rafmagni erlendis sé víða hagstæðara en á Íslandi og að nóg sé til af rafmagni í landinu í augnablikinu.
Segir hann að undirbúningur fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í Árneshreppi haldi áfram þó að hægt hafi á því verkefni.
Vesturverk fékk framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn Árneshrepps fyrir tæpu ári fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna á fyrirhuguðu virkjanasvæði. Samkvæmt skipulagslögum fellur framkvæmdaleyfi úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan tólf mánaða frá veitingu leyfisins.
Kjarninn sendi Birnu Lárusdóttur, þáverandi upplýsingafulltrúa Vesturverks, fyrirspurn um miðjan apríl um stöðu framkvæmda vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í skriflegu svari Birnu kom fram að ákveðið hefði verið að ljúka við skipulagsbreytingar sem eftir eru vegna áformanna áður en farið verður í umfangsmeiri framkvæmdir á svæðinu, svo sem vegagerð upp á Ófeigsfjarðarheiði.
Deilt er um landamerki á áhrifasvæði hinnar fyrirhuguðu virkjunar. Meirihluti eigenda eyðijarðarinnar Drangavíkur hafa stefnt landeigendum þriggja aðliggjandi jarða vegna málsins. Þeir vitna í stefnu sinni í þinglýst landamerki frá því í lok 19. Aldar en samkvæmt þeim tilheyrir hluti fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis Drangavík en ekki eyðijörðinni Engjanesi en eigandi hennar gerði samning um vatnsréttindi við Vesturverk árið 2008.
Málið verður tekið fyrir við Héraðsdóm Reykjavíkur í sumar.