Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um sérstakt átak í fráveitumálum á Íslandi. Samkvæmt því skal veita á tíu ára tímabili, frá 2020 til 2030, framlag úr ríkissjóði sem nemur hlutdeild í kostnaði við fráveituframkvæmdir á vegum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að 200 milljónum verði veitt til fráveituframkvæmda á árinu 2020.
Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja fráveituframkvæmdir á vegum fráveitna sveitarfélaga til þess að uppfylla lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, lög um stjórn vatnamála og reglugerð um fráveitur og skólp.
Ef frumvarpið verður að lögum mun ráðherra auglýsa árlega eftir umsóknum frá fráveitum sveitarfélaga um styrkhæf verkefni á vef ráðuneytisins. Umsækjendum er gert að sækja um styrki stafrænt og skulu umsókninni fylgja greinargóðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað. Skilyrði fyrir fjárstuðningi er að framkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við samþykkta áætlun.
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að í fjáraukalögum fyrir árið 2020, sem samþykkt voru 30. mars, sé lagt til að veitt verði tæplega 18 milljarða króna fjárheimild til sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.
Ástand fráveitumála víða þannig að fráveitur í þéttbýli uppfylla ekki ákveðnar kröfur
Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði vinnuhóp þann 1. október 2019 sem falið var það verkefni að gera tillögur að fyrirkomulagi stuðnings ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda. Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að ástand fráveitumála sé víða þannig að fráveitur í þéttbýli uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru í reglugerð um fráveitur og skólp.
Samkvæmt þessum kröfum skal meðal annars vera safnræsi í þéttbýli þar sem fjöldi persónueininga er 2.000 eða fleiri og hreinsivirki og útrás sem miðast við viðkvæmni þess svæðis sem skólpinu er veitt í. Kostnaður við að ljúka við framkvæmdir við hreinsistöðvar og sniðræsi hefur verið áætlaður um 20 milljarðar króna og kostnaður við endurbætur á lagnakerfum 20 milljarðar til viðbótar.
Fráveitunefnd lét árið 2003 meta eftirstandandi fjárþörf og var hún metin um 11 milljarðar, sem jafngildir 23 milljörðum eða 28 milljörðum í dag eftir því hvort miðað er við neyslu- eða byggingarvísitölu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Samorka hefur tekið saman fyrir ráðuneytið er kostnaður við núverandi og áætlaðar fráveituframkvæmdir sveitarfélaga næstu 10 árin á bilinu 25 til 30 milljarðar króna sé miðað við upplýsingar frá 33 fráveitum sveitarfélaga. Ef miðað er við framkvæmdir sem snúa að sniðræsum, dælustöðvum, hreinsivirkjum og útrásum gæti þessi kostnaður verið um 15 milljarðar.
Plastagnir úr dekkjum og vegamálningu ein helsta uppspretta örplasts sem berst í haf og vötn
Samkvæmt samantekt sjávarlíftæknisetursins Biopol eru plastagnir sem myndast við slit á dekkjum og vegamálningu ein helsta uppspretta örplasts sem berst með regni og leysingavatni í haf og vötn. Til þess að bregðast við þessu væri hægt að leiða vatn af vegum og götum í settjarnir eða í ofanvatnsrásir með síun gegnum jarðveg og reyna þannig að fanga örplastið áður en vatninu er veitt í viðtaka. Kostnaður við hreinsun ofanvatns með þessum hætti er áætlaður um 2,5 milljarðar króna. Samkvæmt skýrslu EFLU um kostnað og leiðir til aukinnar eins þreps hreinsunar skólps umfram grófsíun og möguleika á nýtingu seyru er heildarkostnaður við slíkar breytingar áætlaður 8 til 15 milljarðar króna, að viðbættum kostnaði við að koma seyru í nýtingu, um 2 milljörðum, samtals 10 til 17 milljarðar, að því er fram kemur í greinargerð frumvarpsins.
Rekstrarkostnaður er metinn um 500 til 850 milljónir króna en auk þess kemur 100 milljón króna kostnaður á ári við dreifingu seyrunnar á land.
Akureyrarbær fagnar frumvarpinu
Í umsögn Akureyrarbæjar kemur fram að bæjarráðið fagni frumvarpinu og vekur athygli á því að Akureyrarbær hafi þegar hafið umfangsmiklarfráveituframkvæmdir. Bæjarráð hvetur til þess að tryggt verði að styrkir vegna fráveituframkvæmda nái einnig til þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa hafið kostnaðarsamarframkvæmdir á undanförnum árum en ekki eingöngu tilþeirra sveitarfélaga sem dregið hafa að fara íslíkar framkvæmdir.