„Einkageirinn getur ekki án opinbera geirans verið – og opinberi geirinn getur ekki þrifist án einkageirans. Fram undan er öld pragmatíkur, og sátt við þá staðreynd að markaðsbrestir jafnt og ríkisbrestir leiða til þess að framleiðsluþáttunum kann að vera varið með óskilvirkum hætti, frá einum tíma til annars.“
Þetta skrifar Guðrún Johnsen, doktor í hagfræði, í grein sem birtist í Vísbendingu í síðustu viku og bar fyrirsögnina „Vegvísir út úr veirunni: Græn atvinnustefna fyrir Ísland?“
Þar segir Guðrún að kúnstin liggi í því að hafa sveigjanleika til að sætta sig við að ríkið framleiði sum gæði með skilvirkari hætti og einkageirinn standi sig betur á sumum sviðum, á ólíkum tímum.
Út í hinum stóra heimi sé ljóst er að kreddustjórnmál eins og nýfrjálshyggjan séu á undanhaldi og að kommúnisminn sé ekki að koma aftur. „Við höfum prófað hvoru tveggja. Hvorugt reyndist leiða til sjálfbærrar efnahagsþróunar. Stóra spurningin er hvort þau halda velli á Íslandi, þrátt fyrir tvenns konar hrun sem ríkisvaldið þarf að hreinsa upp. Eða er kominn tími til að búa til metnaðarfulla græna atvinnustefnu fyrir Ísland, svo draga megi úr líkum á þriðja hruninu á okkar æviskeiði?“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.