Algjör einhugur er meðal félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands um að hafna útspili Icelandair frá 10. maí „sem felur í sér tugprósenta launalækkanir og skerðingu á réttindum til frambúðar“.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir ennfremur að afstaða félagsmanna hafi verið könnuð á fundi í dag og niðurstaðan hafi verið sú að félagsmenn eru „með öllu mótfallnir því að umturna gildandi kjarasamningi á einu bretti og fórna kjörum og réttindum sem tekið hefur áratugi að byggja upp“.
Flugfreyjufélagið ítrekar samningsvilja sinn um að koma til móts við Icelandair á meðan núverandi ástand varir og er áfram tilbúið til samtals um sanngjarnar breytingar á gildandi kjarasamningi.
Icelandair Group segir að meðallaun flugfreyja fyrir fullt starf hafi numið 520 þúsund krónum í fyrra og yfirflugfreyjur hafi verið að meðaltali með 740 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf. Þetta kemur fram í svörum félagsins við fyrirspurn mbl.is.
Í svari Icelandair Group kemur einnig fram að dagpeningar hafi að meðaltali verið 140-145 þúsund krónur á mánuði.
Í tilkynningu frá Flugfreyjufélaginu í morgun kom fram að félagið hafi allt frá því faraldurinn braust út leitað allra leiða til að koma til móts við Icelandair. Þar er bent á að flugfreyjur hafi verið án kjarasamnings í eitt og hálft ár og því ekki notið kjarabóta ólíkt flestum á vinnumarkaði. Engu að síður hafi félagið boðið Icelandair tilslakanir á kjarasamningi félagsmanna meðan mestu erfiðleikarnir gangi yfir.
Félagið hafi um miðjan apríl lagt fram tilboð um langtímasamning sem hafi falið í sér verulegar tilslakanir, aukinn sveigjanleika og lengri vinnutíma. Nú stilli Icelandair stéttarfélögunum upp við vegg og reyni að gera þau ábyrg fyrir stöðunni.