Sjávarútvegsrisinn Samherji hefur ákveðið að endurgreiða ríkissjóði hlutabætur sem greiddar voru greiddar til starfsmanna tveggja dótturfélaga samstæðunnar, Samherja Íslands og Útgerðarfélags Akureyringa.
Kjarninn greindi frá því 10. apríl að Samherjasamstæðan, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem átti 111 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2018, hefði sett starfsmenn í fiskvinnslum Samherja og dótturfélagsins Útgerðarfélags Akureyringa á hlutabótaleiðina.
Í tilkynningu á vef Samherja segir að fyrirtækin Samherji Ísland og Útgerðarfélag Akureyrar hafi þurft að minnka starfshlutfall starfsmanna í vinnslu á Akureyri og á Dalvík eftir að COVID-19 faraldurinn hófst og voru þessir starfsmenn um tíma í 50 prósent starfi. Breytt starfshlutfall hafi meðal annars til komið vegna krafna stjórnvalda um sóttvarnir en markmiðið hafi verið að minnka líkur á að smit bærist á milli fólks og tryggja að starfsfólk gæti unnið í sem mestu öryggi.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, segir að betur hafi tekist að vinna úr þeirri stöðu sem var uppi í kjölfar heimsfaraldursins en útlit var fyrir í byrjun. „Veiðar, vinnsla og sala hafa gengið betur en menn þorðu að vona. Af þeim sökum hafa þessi fyrirtæki ákveðið að nýta ekki hlutabótaleiðina og greiða starfsfólki að fullu. Félögin munu því bera allan kostnað sem féll til vegna truflunar á starfseminni í þágu sóttvarna.“
Mikil reiði í samfélaginu
Samherji bætist þar með í hóp fjölmargra annarra stöndugra fyrirtækja sem ákváðu að setja starfsmenn á hlutabætur en hafa ákveðið að annað hvort endurgreiða þær eða í það minnsta hætta að láta starfsmenn sína þiggja þær. Á meðal fyrirtækja sem tekið hafa þá ákvörðun eru Skeljungur, Hagar, Festi, Origo, Brim og Össur.
Mikil reiði greip um sig í samfélaginu í síðustu viku þegar opinberað var að fyrirtæki sem sum hver eru rekin með miklum hagnaði, eiga mikið eigið fé, ætla að greiða arð eða eru með virkar áætlanir um endurkaup á eigin bréfum hefðu nýtt hlutabótaleiðina.
Forystufólk ríkisstjórnarinnar lýsti því meðal annars yfir að það væri verulega óánægt með þessa stöðu og að réttast væri að gagnsæi ríkti um hvaða fyrirtæki hefðu nýtt sér þetta úrræði stjórnvalda um að semja við starfsfólk um minnkað starfshlutfall.
Fyrr í dag var greint frá því að Persónuvernd telji ekkert í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem komi í veg fyrir að Vinnumálastofnun birti eða afhendi upplýsingar um það hvaða fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina svokölluðu.
Persónuvernd tekur þó ekki afstöðu til þess hvort birting þessara upplýsinga sé lögmæt, þar sem beiðni um birtingu þurfi að skoðast í ljósi upplýsingalaga. Þetta kemur fram í svari Persónuverndar til Vinnumálastofnunar vegna bréfs sem Vinnumálastofnun sendi á dögunum.