Sundlaugar Reykjavíkurborgar munu opna strax á miðnætti á mánudaginn og verða opnar allar nóttina.
Þetta er gert til þess að skapa stemningu, en líka til þess að koma í veg fyrir
að það verði örtröð í sundlaugunum á mánudagsmorgun, segir Steinþór Einarsson,
skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu hjá ÍTR.
Laugarnar mega vera á hálfum afköstum fyrst um sinn. Það þýðir að í stærstu laug borgarinnar, Laugardalslaug, mega allt að 350 gestir vera á sama tíma, en notast verður við helminginn af skápunum sem eru í boði og lauginni verður síðan skipt upp í sjö 50 manna svæði.
Fyrst um sinn mun 192 manns geta mætt á sama í Breiðholtslaug, 120 í Sundhöllina og Árbæjarlaug, 115 í Vesturbæjarlaug og 110 í Grafarvogslaug, samkvæmt svari Steinþórs við fyrirspurn Kjarnans.
Hann segir einnig að 2. júní sé reiknað með að hækka leyfilegan gestafjölda upp í 75 prósent af hámarksfjöldanum og að sundlaugarnar verði komnar á full afköst 15. júní.
Steinþór segir að
unnið hafi verið að því að útfæra fyrirkomulag sundferða í samstarfi við landlæknisembættið
og fleiri undanfarnar vikur og nú séu skýrar leiðbeiningar til, sem farið sé
eftir. Hann segir það á ábyrgð hvers og eins sundgestar að virða tveggja metra regluna ofan í laugunum eins og annars staðar í samfélaginu.
Steinþór býst við því að opnun sundlauganna verði vel tekið, enda hafi síminn og tölvupósturinn hjá honum „varla stoppað“ undanfarna tvo mánuði vegna fyrirspurna um hvort ekki fari að verða mögulegt að baða sig í laugunum á ný.
Allt að 200 manns mega fara Ásvallalaug í Hafnarfirði
Kjarninn sendi líka fyrirspurn á Hafnarfjarðarbæ til þess að fá að heyra hversu margir gætu dýft sér í hafnfirsku laugarnar. Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri bæjarins segir að unnið hafi verið að því að heimfæra tilmæli og viðmið yfirvalda á hvern stað fyrir sig.
„Hjá okkur þýðir þetta að í Ásvallalaug getum við tekið á móti 200 manns frá og með mánudegi og vöktum svo sérstaklega öll skilgreind rými á hverjum stað miðað við 50 manns. Í Sundhöll Hafnarfjarðar verður hámarksfjöldinn 32,“ segir Árdís.
Hún bætir við að vegna umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda við Suðurbæjarlaug verði ekki hægt að opna þar fyrr en 25. maí. Þá er reiknað með að í mesta lagi 30 manns geti farið í sund á sama tíma til að byrja með, á útisvæði laugarinnar.