Það liggur fyrir að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu muni þurfa að hætta starfsemi, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Það sé ljóst að ekki verður sofið í öllum hótelherbergjunum, allir bílaleigubílarnir verða ekki leigðir og ekki verða nægilega margir viðskiptavinir til þess að öll afþreyingarþjónustufyrirtækin standi undir sér.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali Kjarnans við Sigurð Inga sem birt var um liðna helgi. Viðtalið er hluti af umfjöllunarröð Kjarnans þar sem sjónum er beint að þeirri framtíð sem gæti sprottið upp úr stöðunni sem nú blasir við Íslandi efnahagslega. Fyrsti hluti þeirrar umfjöllunar voru viðtöl við alla þrjá formenn stjórnarflokkanna.
„Ég held að það sé hinn blákaldi raunveruleiki sem að enginn vildi horfast í augu við upphaflega, en flestir eru að gera sér grein fyrir. Í starfsgrein sem var nokkuð mikið skuldsett og stóð frammi fyrir áskorunum allt síðastliðið ár, og jafnvel síðastliðin tvö ár, er óumflýjanlegt að það verði einhverjar breytingar. Ég held að það sé augljóst að nokkur hluti þeirra fyrirtækja mun ekki lifa þetta af.“
Frekar að nota fjármunina til að örva eftirspurn
Sigurður Ingi segir að í stað þess að ríkið haldi þeim fyrirtækjum sem séu ekki lífvænleg gangandi án þess að þau séu í neinni starfsemi sé betra að nota fjármuni til að ýta undir að þau sem geti bjargað sér eigi meiri möguleika með því að örva innlenda eftirspurn.
Ein leið sem hann sér til að örva eftirspurnina í ferðaþjónustu í sumar er að skala upp fyrri hugmyndir um að dreifa 1,5 milljarði króna til landsmanna í formi stafrænna ávísana til að eyða í ferðaþjónustu innanlands. „Tæknilausnin liggur fyrir, útfærslan er einföld. Það væri hægt að skala þetta upp og búa til verulega eftirspurn eftir ferðaþjónustunni á Íslandi og flétta það síðan saman við opnun landamæra sem verður þó háð því hvernig öðrum löndum tekst að eiga við pláguna.“
Hægt er að lesa viðtalið við Sigurð Inga í heild sinni hér og hlusta á það hér fyrir neðan.