Umdeilt frumvarp um afnám stimpilgjalds vegna skipaviðskipta, sem sjómenn telja að stefni atvinnuöryggi þeirra í hættu, var samþykkt á Alþingi í gær. Um er að ræða frumvarp sem lækkar skattbyrði útgerðanna, en á árunum 2008 til 2017 greiddu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki rúma 1,2 milljarða króna í stimpilgjöld vegna viðskipta sinna með fiskiskip.
Sjómenn óttast að með afnámi stimpilgjaldsins fari útgerðarfyrirtækin að flagga skipum sínum inn og út úr landinu í stórauknum mæli, með neikvæðum afleiðingum fyrir íslenska sjómenn. Þegar talað er um að flagga skipum úr landi er átt við að færa þau eignarhald þeirra til félaga erlendis, til þess að geta veitt í erlendum lögsögum.
Þessu tengt
Í umsögn Sjómannafélagsins og VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna um frumvarpið sagði að stimpilgjöldin hefðu til þessa verið „nauðsynlegur hemill“ til að vernda störf íslenskra sjómanna. Bent var á að sjómenn væru í flestum tilfellum fjölskyldumenn sem ættu lífsviðurværi sitt undir öruggu rekstrarumhverfi skipanna sem eru þeirra starfsvettvangur og Félag skipstjórnarmanna tók svipaðan streng í umsögn sinni um málið.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, segir í samtali við Kjarnann að meirihluti efnahags og viðskiptanefndar hafi augljóslega ekkert hlustað á áhyggjur stéttarfélaganna af þessu máli og segir ljóst að lagabreytingin muni koma niður á sjómönnum.
„Þetta skaðar okkar menn,“ segir Valmundur og bendir á að þegar skip séu færð héðan og yfir til tengdra félaga í Grænlandi sitji undirmenn í íslenskri áhöfn skipsins gjarnan eftir með sárt ennið og enga vinnu, þar sem grænlensk lög kveða á um að grænlensk fiskiskip séu að mestu mönnuð grænlenskum skipverjum. Þeir sem fái grænlenskt pláss séu einnig á mun lakari kjörum en kveðið er á um í íslenskum kjarasamningum og missi smám saman réttindi sín til almannatrygginga á Íslandi. Þetta sé því slæmt mál.
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar mælti með því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Varðandi áhyggjur sjómanna af atvinnuöryggi í vísaði nefndarmeirihlutinn í nefndaráliti sínu bæði til umsagnar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), hagsmunasamtaka útgerðarmanna sem hafa lengi hafa barist fyrir því að stimpilgjaldið verði afnumið, og einnig til minnisblaðs frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu um þetta álitaefni.
SFS sögðu að staða íslenskra sjómanna myndi ekki breytast, yrði frumvarpið að lögum og í minnisblaði ráðuneytisins sagði meðal annars að frumvarpið myndi í engu breyta kjörum sjómanna við veiðar íslenskra skipa á íslenskum aflaheimildum. Ráðuneytið benti jafnframt á að auðveldara yrði að flytja skip tímabundið frá Íslandi og til annars ríkis. Með því gætu orðið til nýjar tekjur hjá útgerðarfélögum og mögulega einnig tækifæri fyrir íslenska sjómenn.
Valmundur segir að hann telji að ráðuneytið hafi í raun ekki tekið afstöðu til þeirra atriða sem sjómenn höfðu áhyggjur af, en byggt á minnisblaði ráðuneytisins og umsögn SFS sagðist meirihluti nefndarinnar þó ekki hafa „ástæðu til að óttast“ að afnám stimpilgjaldsins ógnaði atvinnuöryggi sjómanna.
Einnig sagðist meirihluti nefndarinnar telja að atvinnuöryggi starfsstétta bæri að tryggja öðruvísi en með stimpilgjöldum á atvinnutæki, til dæmis í lögum um viðkomandi atvinnugrein og í kjarasamningum.
Engar brýnar aðstæður kalli á skattalækkun á útgerðirnar
Ekki var þó einhugur um þessa afstöðu í efnahags- og viðskiptanefnd. Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar og Álfheiður Eymarsdóttir Pírati sögðu í áliti sínu um málið að þrátt fyrir að þau væru á því að í fyllingu tímans væri skynsamlegt að stefna að afnámi allra stimpilgjalda í áföngum, væri nú um að ræða sértæka skattalækkun fyrir útgerðir sem kaupa og selja fiskiskip.
„Engar brýnar aðstæður kalla á að sköttum sé sérstaklega létt af útgerðinni eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ekki síst í ljósi þeirra erfiðu og óljósu tíma sem nú eru í efnahagsmálum,“ sögðu Jón Steindór og Álfheiður.
Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar tók undir þá afstöðu sem hafði komið frá stétt sjómanna, að vel kæmi til greina að fella niður stimpilgjöldin þegar skip kæmu í fyrsta skipti inn á íslenska skipaskr. Það væri þó ekki rétt að fella þau niður þegar verið væri að flagga skipum inn og út af íslensku skipaskránni eftir hentugleika.
„Afleiðingar þessarar breytingar geta orðið verulegar fyrir stöðu íslenskra sjómanna. Stöðu sjómanna ætti frekar að gæta að og styðja í stað þess að grípa til ráðstafana sem ógna atvinnuöryggi þeirra. Skýrt dæmi um slíkt er þegar íslensk skip eru skráð á Grænlandi en samkvæmt grænlenskum lögum er skylda að allir undirmenn á skipinu séu grænlenskir. Einnig eru slysatryggingar og kjarasamningsbundin réttindi sem sjálfsögð eru á íslenskum skipum ekki á skipum sem flaggað er til Grænlands,“ sagði Oddný í áliti sínu.
Önnur umræða um frumvarpið fór fram í þinginu á þriðjudag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði þá að hann gæti ekki stutt frumvarpið þrátt fyrir að vera í grunninn sammála afnámi stimpilgjalds. Á frumvarpinu væri nefnilega sá galli að ekki væri komið til móts við yfirlýstar áhyggjur sjómanna með neinum hætti.
„Sanngirnismál“ fyrir útgerðirnar
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks sagðist á móti vera fullviss um að þetta myndi virka í báðar áttir, þannig að fleiri erlendum skipum yrði flaggað inn og þau mönnuð íslenskum áhöfnum.
„Við sjáum núna, þegar loðnubrestur verður, að það væru gríðarleg tækifæri í því að útgerðin gæti flaggað út skipunum sínum, til þess að stunda veiðar á öðrum hafsvæðum. Það er gríðarlega kostnaðarsamt að flagga skipum inn og út og svona venjulegt uppsjávarskip, notað, er að greiða kannski svona 70-80 milljónir þegar þú flaggar því út og annað eins þegar það kemur til baka,“ sagði Ásmundur, sem bætti því við um réttlætismál væri að ræða fyrir íslenskar útgerðir.
„Það þætti mörgum Suðurnesjamanninum skrítið, ef að Icelandair ætlaði að flagga út flugvél í einhverja mánuði í verkefni erlendis, að þá þyrfti að borga stimpilgjald af flugvélinni. Það dettur ekki nokkrum manni í hug. Þess vegna er það bara sanngirnismál að útgerðin sitji við sama borð og aðrir,“ sagði Ásmundur.
Margt skrítið í „þríeinum kýrhaus ríkisstjórnarinnar“
Jón Steindór þingmaður Viðreisnar steig einnig í pontu á þriðjudag og gagnrýndi að þetta frumvarp væri verið að samþykkja núna í miðjum heimsfaraldri sem er, samkvæmt spá Seðlabanka Íslands, að fara að blása Íslandi inn í dýpstu kreppu síðan árið 1920.
„Nú ber svo við að ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa metið það svo að það sé forgangsatriði að ívilna útgerðinni með klæðskerasniðnu frumvarpi henni til hagsbóta. Það er vægast sagt sérkennilegt, en það er nú einu sinni þannig að í hinum þríeina kýrhaus ríkisstjórnarinnar er margt skrítið og kemur kannski ekki á óvart hvernig hinn þríeini kýrhaus hugsar í þessu máli,“ sagði Jón Steindór.
Fleiri þingmenn, sem mótfallnir voru frumvarpinu, tjáðu sig um það í pontu Alþingis í gær og sögðu þingmenn bæði Viðreisnar og Samfylkingar að samþykkt frumvarpsins sýndi að hagsmunir stórútgerðarinnar í landinu væru í fyrirrúmi hjá ríkisstjórninni.
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar sagðist sitja hjá við afgreiðslu málsins með óbragð í munni og Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingar sagði að um væri að ræða sumargjöf ríkisstjórnarinnar til útgerðanna.
Málið var samþykkt með 28 atkvæðum gegn 14.