Yfirvöld í Austurríki ætla að hefja skimun fyrir kórónuveirunni meðal starfsmanna hótela í þeirri von að lokka Þjóðverja og aðra ferðamenn til landsins í sumar. Skíðasvæði í landinu varð að gróðrarstíu fyrir útbreiðsluna í febrúar og bárust smit meðal annars þaðan til Íslands.
Til harðra aðgerða var gripið í Austurríki til að hefta útbreiðsluna. Aflétting takmarkana hófst í skrefum fyrir um mánuði síðan. Verslanir, veitingahús, barir og sum söfn hafa verið opnuð á ný og til stendur að opna hótel frá 29. maí.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagði á ráðstefnu í dag að sýni verði tekin úr sem flestum hótelstarfsmönnum og sem oftast til að tryggja að þeir breiði ekki út veiruna meðal ferðamanna.
Ferðaþjónusta er risavaxin atvinnugrein í Austurríki. Flestir ferðamenn koma frá nágrannaríkinu Þýskalandi þar sem nokkuð vel hefur tekist að fækka smitum síðustu vikur, fyrir utan nokkur hópsmit, m.a. í kjötvinnslum.
Landamæri milli Austurríkis og Þýskalands verða opnuð að fullu í júní.
Skíðabærinn Ischgl varð miðja útbreiðslu veirunnar í febrúar og í mars var hann afkvíaður til að ná tökum á ástandinu. Hundruð ferðamanna frá Þýskalandi, Íslandi og Noregi sýktust þar og báru veiruna til sinna heimalanda.
Í frétt New York Times segir að í byrjun júlí hefjist sýnatökuherferð meðal um 65 þúsund hótelstarfsmanna. Á hverjum degi eru nú tekin um 6-8.000 sýni í Austurríki.
Kurz segir að með umfangsmiklum sýnatökum meðal starfsmanna í ferðaþjónustu skapi Austurríki sér sérstöðu á heimsvísu.
Í Austurríki er þeim sem koma frá Schengen-svæðinu heimilt að fara inn í landið án þess að fara í sóttkví ef þeir sýna læknisvottorð um neikvætt COVID-19-próf. Prófið má ekki vera eldra en 4 daga gamalt og þarf að vera útgefið af lækni á ensku eða þýsku.
Frá 4. maí hafa ferðamenn sem lenda á flugvellinum í Vínarborg getað farið í sýnatöku til að fá úr því skorið hvort þeir séu sýktir af nýju kórónuveirunni. Þannig geta þeir komist hjá því að fara í tveggja vikna sóttkví.
Svipað fyrirkomulag stendur fyrir dyrum á Keflavíkurflugvelli.
Slóvenía hefur tekið upp annað fyrirkomulag sem vakið hefur athygli. Öllum sem koma til Slóveníu er gert að fara í sjö daga sóttkví. Á síðasta degi sóttkvíar er skylt að fara í COVID-19-próf. Sóttkví er aflétt þegar niðurstaða prófs liggur fyrir ef próf er neikvætt.