Icelandair er eina flugfélagið sem flýgur reglulega með farþega til og frá landinu í augnablikinu. Áhersla félagsins, í samstarfi við stjórnvöld, er að halda uppi lágmarks flugsamgöngum. Núna er flogið með farþega til Boston, London og Stokkhólms og er flugáætlunin uppfærð viku fram í tímann, segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.
„Ferðabönn eru í gildi víða en við fylgjumst vel með þróun mála á öllum okkar áfangastöðum,“ segir hún. Enn ríki mikil óvissa um næstu skref „en við vonumst auðvitað til að geta hafið daglegt flug til lykiláfangastaða eftir að landamæri Íslands verða opnuð 15. júní en eftirspurnin mun ráða för.“ Segir hún Icelandair þá sjá fyrir sér áfangastaði eins og Kaupmannahöfn, Ósló, Frankfurt og Berlín. „Þetta er þó allt háð eftirspurn en við erum tilbúin og getum brugðist hratt við um leið og eftirspurn tekur við sér.“
Spánn er óðum að opnast og stjórnvöld þar hvetja ferðamenn til að koma. Ásdís Ýr segir þetta jákvæðar fréttir og að Icelandair reikni með að geta boðið flug til Spánar, t.d. Kanarí og Tenerife í sumar. „Svo erum við sífellt að meta stöðuna hvað alla okkar áfangastaði varðar.“
Sem stendur segir hún ekki verið að skoða nýja áfangastaði með tilliti til þess hver staðan á faraldri kórónuveirunnar er í hverju landi. Fyrst og fremst sé verið að einbeita sér að þeim áfangastöðum sem þegar eru í leiðakerfi Icelandair. „Við stöndum enn frammi fyrir miklum ferðatakmörkunum í heiminum. Ferðalög milli landa munu fara hægt af stað aftur en vonandi mun áhugi og ferðavilji aukast jafnt og þétt þegar á líður.“
Icelandair finnur að sögn Ásdísar „tvímælalaust“ fyrir áhuga erlendra ferðamanna á að koma til Íslands. „Við höfum hér mikla víðáttu og fallega náttúru sem er líklegt að fólk sæki í þegar þessu ástandi lýkur fremur en að ferðast til stórborga. Þá hefur íslenskum heilbrigðisyfirvöldum tekist vel að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum hér á landi og það hefur einnig áhrif.“
Ekkert farþegaflug er nú um stundir farið milli landa á vegum Air Iceland Connect en flogið er með frakt. Spurð hvort til greina komi að bjóða upp á farþegaflug frá Íslandi til Grænlands og Færeyja sem virðast laus við kórónuveiruna bendir Ásdís á að landamæri Grænlands verði lokuð til 15. Júní og að eftir það verði þau opnuð en með miklum takmörkunum. Ólíklegt sé því að farþegaflug þangað hefjist á næstunni. Air Iceland Connect hefur ekki flogið í áætlunarflugi til Færeyja en verið í samstarfi við færeyska flugfélagið Atlantic Airways í því sambandi.
Einhverjar vikur eru þó enn í að möguleiki verði á flugi milli Íslands og Færeyja því landamæri Færeyja verða lokuð til að minnsta kosti 30. júní.