Sýkla- og veirufræðideild Landspítala er ekki í stakk búin til að vinna nema 500 veirusýni á dag fyrir farþega sem koma hingað til lands. Til að auka afkastagetu þarf að bæta tækjabúnað, mönnun og aðstöðu deildarinnar en miðað við fyrirliggjandi áætlanir er í fyrsta lagi hægt að auka afkastagetu í 1000 sýni á dag eftir miðjan júlí. Aðeins tíu þúsund sýnatökusett eru nú til í landinu.
Þetta er meðal helstu niðurstaðna skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 að á landamærum hér á landi. Skýrslan var kynnt heilbrigðisráðherra í dag en samkvæmt henni þarf að leysa ýmis mál áður en hægt er hrinda skimun komufarþega í framkvæmd. Ákvörðun um afléttingu ferðatakmarkana liggur ekki fyrir og verður ekki tekin fyrr en tillögur sóttvarnalæknis til ráðherra þar af lútandi liggja fyrir.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að mikilvægt sé að líta til þess að ef upp komi hópsýkingar og smit eykst í samfélaginu munu þau sýni hafa forgang fram yfir sýni úr einkennalausum komufarþegum. „Aðkoma annarra greiningaraðila er mögulegt úrræði til að auka greiningargetuna en ekki hefur verið lagt mat á hver sú samanlagða greiningargeta gæti verið.“
Þá segir að sú óvissa sem ríki um fjölda komufarþega á verkefnistímabilinu gæti stofnað verkefninu í hættu þar sem „farið gæti verið fram úr afkastagetu þess og þeim fyrirheitum að taka sýni hjá öllum komufarþegum varpað fyrir róða“. Þetta á við hvort heldur sem er á skilgreindu tímabili eða mögulegu framhaldi þess þar sem væntingar um sýnatöku kunna að vera forsenda fyrir ferðalagi til Íslands.
Verkefnisstjórnin telur að unnt sé að skila niðurstöðum á um það bil fimm klukkustundum frá því síðasta sýni er tekið úr farþegum viðkomandi flugvélar á Keflavíkurflugvelli frá morgni og fram eftir degi. Sýni sem berast smitsjúkdómadeild eftir kl. 17 verða greind næsta morgun nema mönnun verði aukin.
Fyrirséð er að greining sýna frá öðrum landamærastöðvum gæti tekið lengri tíma, sérstaklega ef senda þarf sýnin landshorna á milli.
Kostnaður á hvert sýni er áætlaður undir 50 þúsund krónum svo framarlega sem tekin eru fleiri en 107 sýni á dag. Kostnaðurinn fer lækkandi með fjölgun sýna og er tæpar 23 þúsund krónur miðað við 500 sýni á dag.
Þá segir í skýrslunni að nauðsynlegt sé að kveða á um í lögum eða reglum um ábyrgð flugrekenda á forskráningu farþega til að fækka smitandi einstaklingum sem gætu komið til landsins, til að sýnatökuferlið geti gengið hratt og vel fyrir sig og til að auðkenna þá farþega sem framvísa vottorðum eða velja að fara í sóttkví. Einnig er nauðsynlegt að frávísunarheimildir á landamærum séu skýrar gagnvart þeim sem ekki ætla að hlíta sóttvarnaráðstöfunum.
„Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi verklag um sýnatöku vegna veikinda í landinu, greiningu, smitrakningu, sóttkví og einangrun með því að hafa samhæfingastöð almannavarna og sóttvarna áfram virka til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar og að upplýsingagjöf til ferðamanna sé mikilvægur hluti verkefnisins. Bæta þurfi sérstaklega við virkni Rakning C-19 smáforritsins og upplýsingar til ferðamanna í því.
Hildur Helgadóttir sem leiddi vinnu verkefnisstjórnarinnar kynnti niðurstöðurnar fyrir heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra á fundi í gær ásamt öðrum fulltrúum verkefnisstjórnarinnar. Fundinn sat einnig sóttvarnalæknir.