Þau flugfélög sem hafa flogið hingað til lands undanfarin ár hafa verið í sambandi við Isavia til að kanna stöðuna hér um leið og þau hafa upplýst um stöðuna þeirra megin. Þá hefur Isavia haldið nánu sambandi við þessa flugrekendur til að upplýsa þá um gang mála á Íslandi.
Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, spurður um hvort erlend flugfélög hafi sýnt því áhuga að fljúga hingað í sumar þegar landamæri hér og víðar í Evrópu hafa opnast. Þegar hefur verið gefið út að stjórnvöld stefni að því að bjóða ferðamönnum að fara í sýnatöku við komuna til Keflavíkurflugvallar eða að framvísa viðurkenndu vottorði í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví.
Stýrihópur skilaði nýverið skýrslu með hugmyndum að útfærslum. Í kjölfarið skipaði heilbrigðisráðherra verkefnisstjórn og fól henni undirbúning að framkvæmd sýnatöku hjá komufarþegum. Stefnt er að því að eigi síðar en 15. júní verði skimunin komin til framkvæmda og tveimur vikum eftir að hún hefst verði verkefnið metið og tekin ákvörðun um framhaldið á grundvelli þeirrar niðurstöðu.
Verkefnisstjórnin á einnig að gera tillögur um framkvæmd sýnatöku og greiningar hjá farþegum sem koma til landsins eftir öðrum leiðum en með flugi til Keflavíkur.
Í minnisblaði heilbrigðis- og dómsmálaráðherra um málið segir að viss áhætta sé fólgin í því að draga úr sóttvarnaráðstöfunum og liðka fyrir ferðalögum til og frá landinu þar sem fá ríki hafi náð jafn góðum tökum á faraldrinum og hér. Aftur á móti megi líta til þess að í ljósi góðrar stöðu okkar og þeirrar staðreyndar að fyrr eða síðar verði aukin ferðalög til og frá landinu óhjákvæmileg sé nú tímabært að huga að tilslökunum. „Að ýmsu leyti sé hagstætt að gera það núna þar sem ferðalög á milli landa séu hvort eð er í lágmarki og því svigrúm fyrir hendi til að prófa sig áfram án þess að missa tök á ástandinu.“
Sóttvarnalæknir mun vinna minnisblað til heilbrigðisráðherra upp úr tillögum vinnuhópsins sem ráðherra mun svo byggja ákvörðun sína á og er hennar að vænta fljótlega.
Aðeins eitt flugfélag með reglubundið farþegaflug
Icelandair er eina flugfélagið sem er nú með reglubundið farþegaflug til Íslands. Eitt og eitt flug annarra flugfélaga hefur þó „tínst inn af og til,“ segir upplýsingafulltrúi Isavia, „meðal annars sérstök flug með erlenda ríkisborgara frá Íslandi“.
Í júlí í fyrra buðu 23 flugfélög upp á flugferðir frá Íslandi til 67 áfangastaða. Yfir 840 þúsund farþegar voru fluttir til og frá Keflavíkurflugvelli i þeim mánuði. Í apríl í ár voru 3.132 flugfarþegar fluttir til og frá Íslandi um flugvöllinn.
Þegar hafa bandarísk flugfélög ákveðið að fljúga ekki til Íslands í sumar en önnur félög sem hingað hafa vanið komur sínar hafa ekki gefið slíkt út.
Guðjón segir að Isavia geti brugðist mjög hratt við þegar flugfélög vilja hefja flug til Íslands á nýjan leik. „Við erum þegar tilbúin að taka við vélum og verðum tilbúin þegar flugfélögin koma.“