Á fundi dómara Hæstaréttar Íslands í dag var Benedikt Bogason kjörinn varaforseti réttarins frá og með deginum í dag og til loka næsta árs. Benedikt hefur verið hæstaréttardómari frá því október 2012 en áður hafði hann verið settur dómari við réttinn frá 2011. Hann er einnig formaður dómstólasýslunnar.
Forseti Hæstaréttar er Þorgeir Örlygsson sem hefur gegnt þeirri stöðu frá árinu 2017.
Benedikt hefur verið í fréttum undanfarin misseri vegna þess að hann höfðaði meiðyrðamál á hendur Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, vegna ummæla sem birtust í bók Jóns Steinars „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“.
Héraðsdómur Reykjaness sýknaði Jón Steinar af tveggja milljóna króna kröfu Benedikts vegna meintra ærumeiðinga á sínum tíma og í fyrrahaust staðfesti Landsréttur ná niðurstöðu.
Í febrúar samþykkti Hæstiréttur hins vegar umsókn Benedikts um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í meiðyrðamálinu.