„Niðurstöður könnunar á starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis eru sláandi og kalla á afgerandi viðbrögð af hálfu forseta Alþingis.“ Þetta kemur fram í bréfi þingflokksformanns Viðreisnar, Hönnu Katrínar Friðriksson, til Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis sem sent var til hans í dag.
Í könnuninni sem framkvæmd var fyrr á árinu kemur fram að fimmtán þingmenn hafi orðið fyrir einelti í starfi eða í tengslum við starf sitt, eða 35,7 prósent þeirra 42 þingmanna sem tóku afstöðu til spurningarinnar.
Alls 20 prósent af þeim 153 starfsmönnum á Alþingi sem svöruðu könnuninni sögðust hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu og 18,4 prósent þátttakenda sögðu að þeir hefðu einhvern tímann orðið fyrir kynbundinni áreitni á starfstíma sínum á Alþingi eða í tengslum við starf sitt þar.
Aðför að lýðræðinu
Í bréfi Hönnu Katrínar segir að könnunin sýni að óásættanlegur fjöldi þingmanna, starfsfólks Alþingis og starfsfólks þingflokka hafi upplifað einelti og kynferðislegt eða kynbundið áreiti í starfi sínu. Þessi staða sé ekki eingöngu óboðleg þeim einstaklingum sem um ræðir, heldur sverti ímynd Alþingis og hafi hamlandi áhrif á getu og vilja fólks til þess að starfa á vettvangi stjórnmálanna. Það síðastnefnda sé alvarleg aðför að lýðræðinu.
„Fram hefur komið að jafnréttisnefnd Alþingis er ætlað að ræða eftirfylgni könnunarinnar. Af hálfu Viðreisnar vil ég leggja áherslu á að þeirri vinnu sé hraðað eins og kostur er. Jafnframt sé þess gætt að eiga samstarf við þá flokka sem sæti eiga á Alþingi um nauðsynlegar breytingar á vinnuaðstæðum og vinnustaðamenningu. Endurskoðun á þingskaparlögum hlýtur að vera undir í þeirri vinnu.
Til viðbótar við það að bæta starfsumhverfi á Alþingi til frambúðar, er mikilvægt að koma strax til móts við þá sem nú upplifa einelti eða áreiti í starfi sínu. Af því tilefni má nefna að Viðreisn samdi fyrir ári við Hagvang um að taka í notkun þjónustu Siðferðisgáttarinnar fyrir skráða félaga og starfsfólk Viðreisnar. Siðferðisgáttin er vettvangur til að koma á framfæri kvörtunum eða ábendingum um einelti, áreiti, ofbeldi eða vanlíðan í starfi til óháðs aðila sem kemur þeim í réttan farveg. Reynslan af þessum stuðningi er jákvæð og ekki úr vegi að jafnréttisnefnd Alþingis skoði svipaða nálgun,“ segir í bréfinu.