Landsmenn virðast í auknum mæli sækja í útivist þetta sumarið. Sprenging hefur orðið í bókunum á ferðum hjá Ferðafélagi Íslands og samkvæmt nýlegri könnun Ferðamálastofu ætla níu af hverjum tíu að ferðast innanlands í sumar.
Starfsfólk Ferðafélags Íslands finnur vel fyrir auknum áhuga á ferðum félagsins í sumar. Sést það meðal annars í því að félagsmönnum hefur fjölgað um rúmlega 300 á síðustu vikum. Fjöldi félaga nálgast 10.000 og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þá hefur selst upp í margar ferðir félagsins og það þurft að bæta við ferðum.
„Þegar ljóst var hversu mikill áhugi var á ferðum félagsins um miðjan apríl, þá kom ferðanefndin aftur saman og bætt var við ferðum og verkefnum. Segja má að viðbót nýrra ferða og bókanir nemi þegar um 30% aukningu og eigum við þó enn eftir að bæta við ferðum og munum gera það á næstu tveimur vikum.“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins, í samtali við Kjarnann.
„Í ljósi þessa mikla áhuga þá höfum við bætt við starfsfólki í sumarstörf í afgreiðslu sem er auðvitað mjög ánægjulegt miðað við hvað staðan er víða þung í atvinnulífinu,“ bætir hann við.
Halldór Hreinsson eigandi Fjallakofans hefur ekki farið varhluta af auknum áhuga landans á útivist. „Frá niðurfellingu samkomubanns er þetta líkt og skrúfað hafi verið frá krana,“ segir Halldór um aðsóknina í útivistarvörur.
Að hans mati er ljóst að samkomubann og aukin innivera sem henni fylgdi hafi aukið áhuga fólks á útivist. „Við erum að taka á móti mikið af fjölskyldum sem eru að stíga upp úr sófanum og ætla að ferðast innanlands af því að þau komast ekki til sólarlanda. Þetta er jákvæð þróun í þeirri merkingu að viðkomandi einstaklingar og fjölskyldur kynnast landinu og hvort öðru betur í svona ferðalögum.“
Halldór bendir á að mesta aukningin sé þó í sölu fjallaskíða. „Þetta er búið að fjórfaldast núna miðað við eðlilegt árferði, bara á síðustu mánuðum og maí er búinn að vera klikkaður,” segir Halldór sem telur margt fólk vera að stíga sín fyrstu skref í þeirri tegund útivistar.
Þeir Páll og Halldór eru báðir sannfærðir um að fækkun erlendra ferðamanna muni auka áhuga Íslendinga fyrir því að heimsækja þá ferðamannastaði sem almennt eru vinsælastir. „Vegna mikils fjölda ferðamanna á þekktum ferðamannastöðum undanfarin ár höfum við Íslendingar víða hörfað af þeim svæðum og leitað annað. Nú er því kærkomið tækifæri að heimsækja þessa staði á ný,” segir Páll.