Ef skima á alla farþega við komuna til landsins virðist hagfræðilega rétt að kostnaðurinn sé greiddur af farþegunum sjálfum. Með því myndu farþegarnir greiða heildar kostnað sem fylgir þeirri ákvörðun að ferðast á þessum tímapunkti auk þess sem að öðrum kosti gætu myndast hvatar fyrir ferðalög til þess eins að fá próf sem virðast af skornum skammti víða erlendis. Þá mætti líta til þess að beinar skatttekjur ríkissjóðs af hverjum ferðamanni eru áætlaðar 20.000- 25.000 krónur, eða nokkru lægri upphæð er skimunin virðist kosta.
Þetta kemur fram í greinargerð efnahags- og fjármálaráðuneytisins um hagræn áhrif þess að aflétta ferðatakmörkunum hingað til lands. Í gær ákvað heilbrigðisráðherra að fara að tilmælum sem sóttvarnalæknir setti fram í minnisblaði um að opna landamæri gegn því að komufarþegar fari í sýnatöku eða í tveggja vikna sóttkví.
Í greinargerðinni, sem fjármálaráðuneytið vann að beiðni forsætisráðherra, er farið yfir mögulegan kostnað og tekjur af þremur kostum: Óbreytt ástand við landamæri, opna þau án sýnatöku eða opna þau með skilyrðum um skimun, framvísun vottorðs eða sóttkví.
Ráðuneytið kemst að því í greinargerð sinni að réttara virðist að draga úr ferðatakmörkunum með þeim sóttvarnaraðgerðum sem þar til bærir sérfræðingar telja að dragi nægilega úr hættu á víðtækum smitum. Bent er á að ferðavilji virðist mjög takmarkaður hjá fólki en með opnun innri landamæra Schengen-ríkja megi áætla að ferðamenn sem hingað muni koma séu fyrst og fremst frá Evrópu.
Þetta telur ráðuneytið því heppilegan tíma til að þróa efnahags- og samfélagslega umgjörð fyrir opnun landamæra að nýju. En í því sambandi þurfi annars vegar að líta til þess hver skuli bera kostnað af sóttvarnaraðgerðum á borð við skimun og hins vegar hvernig björgum heilbrigðisþjónustunnar, þar með talið hlífðarbúnaði og rannsóknargetu, og fjármunum ríkissjóðs til heilbrigðismála er best varið.
Í greinargerðinni segir að „rétt þyki“ að ferðamenn greiði sjálfir fyrir sýnatökuna við komuna til landsins. Á það er þó bent að almenn skimun sé ígildi skattlagningar á ferðalög. „Enn er þó mjög óljóst hvernig verð á flugi til og frá landinu munu þróast. Með greiðslu ferðamanna fyrir prófið má þó stuðla að því að þeir sem sækja landið heim séu efnameiri ferðamenn sem eyði meiru og dvelji lengur, enda yrði greiðslan fyrir prófið hin sama óháð dvalarlengd.“
Einnig þarf, að mati ráðuneytisins, að horfa til þess að ríkissjóður niðurgreiði ekki samfélagslegan kostnað af utanlandsferðum Íslendinga „sem virðast af reynslu síðustu mánaða hafa meiri áhrif á mögulega útbreiðslu veirunnar en komur erlendra ferðamanna“. Ef Íslendingar leiti hraðar út en ferðamenn til landsins geti það haft neikvæð áhrif á innlenda eftirspurn og viðskiptajöfnuð.