Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, segist vera að fara yfir úrskurð kærunefndar jafnréttismála en samkvæmt honum braut hún jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra. Þetta kom fram í viðtalið RÚV eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
„Annars vegar erum við með hæfnisnefnd sem kemst að allt annarri niðurstöðu og hins vegar úrskurðarnefnd jafnréttismála og nú er ég að meta það með lögmönnum hver eru næstu skref. Það er staða málsins,“ segir Lilja.
Hún segist sjálf hafa farið yfir málið. „Ég fór yfir þetta að sjálfsögðu líka og ég gat ekki séð að það væru veigamiklar ástæður að ég ætti ekki að fara eftir niðurstöðu hæfnisnefndar.“
Fagnar því að málið sé til skoðunar
Málið er nú til skoðunar hjá umboðsmanni alþingis og segist Lilja fagna því að þetta mál fái efnislega skoðun. „Það er nefnilega þannig að öll þau verk sem ég hef komið að á síðustu árum hafa alltaf verið unnin af algjörri fagmennsku og ég hef alltaf fengið færasta og öflugasta fólkið til liðs við mig.“
Hún segist láta verkin tala og að hún sé stolt af því sem þau hafi verið að gera. „Og það er það sem ég hef um málið að segja. En núna erum við að skoða þetta og næstu skref verða svo ákveðin.“
Varðandi ráðningu Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra þá segir Lilja að það hafi ekki skipt máli að hann væri framsóknarmaður. „Eins og ég segi, það er alltaf hæfasta fólkið sem er valið hjá mér og verkin sýna það líka.“
Hún segist jafnframt taka úrskurðinn alvarlega og að hún sé búin að fá álit frá lögmönnum sem bendi í aðra átt. „En það þarf að vanda sig alveg gríðarlega og auðvitað er það alltaf þannig að þegar maður fær svona þá fer maður mjög gaumgæfilega yfir málin.“
Mat það svo að Einar væri hæfari
Lilja var að endingu spurð út í ráðningu Einars Huga Bjarnasonar sem formaður fjölmiðlanefndar þegar búið hefði verið að benda á hæfari konu.
„Það er þannig að viðkomandi aðili, hann er mjög hæfur, og ráðherra tekur ákvörðun um það. Það kemur tillaga um aðra manneskju. Ég mat það svo að hann væri hæfari, enda hefur viðkomandi aðili samið fjölmiðlafrumvarpið og hefur mjög mikla reynslu og er sérstaklega hæfur einstaklingur,“ sagði Lilja að lokum.