Nýlega hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti skotið föstum skotum í átt að Antifa, hópi aðgerðarsinna gegn fasisma. Bæði Trump og ráðherrar í ríkisstjórn hans hafa sakað Antifa um að bera ábyrgð á því að mótmælin sem nú einkenna bandarískt þjóðlíf hafi brotist út í óeirðir.
Til að mynda lét William Barr dómsmálaráðherra þessi orð falla á blaðamannafundi í vikunni: „Við höfum sönnunargögn fyrir því að Antifa og aðrir sambærilegir öfgahópar sem og erlendir æsingamenn með fjölbreyttar stjórnmálalegar skoðanir hafa stuðlað að og tekið þátt í ofbeldisfullum aðgerðum.“
Þann 31. maí lýsti Trump því yfir að bandarísk stjórnvöld ætluðu sér að skilgreina Antifa sem hryðjuverkasamtök. Óljóst þykir hvernig því verður háttað enda er ekki hægt að líta á Antifa sem samtök, frekar mætti lýsa Antifa sem formlausri hreyfingu.
Minnir á viðbrögð við mannréttindabaráttu svartra á 7. áratug 20. aldar
„Það er mjög erfitt að sjá hvernig það verður framkvæmt,“ segir Pontus Jarvstad um fyrirætlanir Trump í samtali við Kjarnann en Pontus vinnur nú að doktorsverkefni um andfasisma á Norðurlöndunum. Hann segir mikinn aðdraganda liggja að baki þeirri stöðu sem komin er upp í málefnum Antifa í Bandaríkjunum. Þar hafi hreyfingar nasista og fasista mætt harðri andstöðu og andspyrnu frá Antifa og meðlimir slíkra hreyfinga í kjölfarið talað um skerðingu á tjáningarfrelsi. „Núna eru þau náttúrlega mjög glöð ef þetta myndi gerast, að Trump myndi reyna að setja einhvern hryðjuverkastimpil á Antifa,“ segir Pontus.
Hann bætir því við að fjöldahreyfingar líkt og Antifa séu auðvitað mjög flókin fyrirbæri. „Það er ekki hægt að segja að þau séu bara friðsamleg eða bara ofbeldisfull. Fjöldahreyfingar taka á sig alls konar form og það snýst bara um sögulegt samhengi, menningarlegt samhengi, það snýst um svo margt.“
Í kjölfarið víkur Pontus máli sínu að baráttu svartra fyrir auknum mannréttindum í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar og þeirri mótstöðu sem sú mannréttindahreyfing þurfti að þola af hálfu yfirvalda. „Þá sáum við tilhneigingu frá ríkinu til að reyna að grafa undan (e. deligitemize) þessari mannréttindahreyfingu með því að segja að þau væru bara kommúnistar, að þau væru ofbeldisfullir kommúnistar sem vildu gjörbylta bandarísku samfélagi.“
Að hans mati er ákveðin hliðstæða fólgin í viðbrögðum yfirvalda þess tíma við viðbrögð Trumps um þessar mundir. Black Lives Matter sé stór og fjölbreytt mannréttindahreyfing sem er ítrekað bendluð við Antifa, anarkista og menningarlega marxista, svo eitthvað sé nefnt, til þess að draga úr áhrifamætti hreyfingarinnar.
Rætur Antifa liggja í Evrópu
Saga Antifa er margslungin og alls ekki bundin við Bandaríkin. Fyrsta hreyfingin sem fylkti sér á bak við þetta nafn spratt fram í Weimar-lýðveldinu og nafn þessara forvígismanna því upp á þýsku: Antifaschistische Aktion.
„Þetta merki sem er notað nú til dags átti upphaf sitt á millistríðsárunum í Þýskalandi. Það var notað af kommúnistaflokknum í Þýskalandi og áður en nasistarnir komust til valda voru mikið af götubardögum milli nasista og kommúnista,“ segir Pontus um upphafsár Antifa og einkennismerki hreyfingarinnar sem enn er notað í tiltölulega óbreyttri mynd.
Andfasisminn nær þó aftar í evrópskri sögu segir Pontus: „Andfasistar voru búnir að skipuleggja sig löngu fyrir það, eins og til dæmis á Ítalíu áður en Mussolini kom til valda. Þar voru mismunandi andfasískir hópar, bæði frá vinstrinu og líka að einhverju leyti frá frjálshyggjufólki þess tíma.“ Pontus bendir á að sú frjálshyggja sem hér um ræðir sé ólík frjálshyggju dagsins í dag sem helst birtist okkur í nýfrjálshyggju. Frekar hafi þetta verið fólk sem aðhylltist frjálslynd viðhorf og var staðsett vinstra megin á pólitíska ásnum – enska hugtakið liberals sé að einhverju leyti lýsandi.
„Margir sáu það mjög snemma að fasisminn væri ógn á móti verkalýðshreyfingunni. Það sem var mikilvægt þá var að verkalýðshreyfingin átti part í því að byggja upp lýðræði.“ Fasisminn var þar af leiðandi bæði ógn gegn verkalýðshreyfingunni sem og lýðræðinu.
Í baráttu sinni hafi andfasistar notast við ólík verkfæri. Sumir einbeittu sér að því að skrifa gegn fasistunum, aðrir einbeittu sér að því að koma í veg fyrir að fasistar gætu hist og skipulagt sig sem hreyfingu.
Þessi andi náði líka til Íslands og Norðurlandanna. „Á Norðurlöndunum voru alls ekki eins blóðug átök eins og gerðust í hinum Evrópulöndunum,“ segir Pontus. Til dæmis hafi ólíkir hópar keppst við að syngja og markmiðið einfaldlega að vera háværari en hinn hópurinn. „En svo voru líka götubardagar. Það gerðist líka á Íslandi, það voru kommúnistar í götubardögum gegn nasistum hérna á Íslandi á millistríðsárunum og líka á Norðurlöndunum.“
Styrkur andfasista vex og hnígur í takt við ógn fasismans
„Þetta kemur í bylgjum. Andfasismi er náttúrlega bara einhvers konar svar við fasískum hreyfingum,“ segir Pontus um styrk hreyfingarinnar. Hann segir að fólk sem standi að skipulagningu andfasískra hreyfinga sé oft róttækt fólk með róttækar skoðanir sem vinnur með viðkvæmum hópum, hópum sem samanstendur af fólki sem á það að hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu fasista. Hann nefnir flóttafólk og innflytjendur sem dæmi.
„Það sem maður getur sagt um módern andfasískar hreyfingar í Evrópu er að þær eiga upphaf sitt á árunum í kringum 1980-90. Þá sáum við upphaf nýrrar andfasískrar hreyfingar í Evrópu,“ segir Pontus, en þá hafi Antifa sprottið aftur upp sem andsvar við fasískum hreyfingum sem settu sig upp á móti auknum fjölda innflytjenda og flóttamanna í Evrópu. Þannig hafi innflytjendum fyrst og fremst staðið ógn af fasisma í Evrópu á síðustu áratugum í stað verkalýðsins áður.
Hann segir að umfang Antifa hafi ekki vaxið á síðustu árum í Evrópu. Í Bandaríkjunum sé hins vegar annað uppi á teningnum að mati Pontusar: „Þegar Trump var kosinn opnaði hann pólitískt rými þar sem öfgahægrið gat vaxið.“ Þar af leiðandi hafi hreyfing andfasista þar í landi vaxið fiskur um hrygg upp á síðkastið.