Flestir breyttu ekki áfengisnotkun sinni á tímabilinu mars til apríl 2020, eða 56 prósent, en þriðjungur hefur þó notað minni áfengi sem virðist vera í samræmi við niðurstöður frá öðrum löndum. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup sem embætti landlæknis óskaði eftir til að athuga hvort breytingar yrðu á áfengisneyslu fullorðinna á tímum COVID-19.
Tæplega 30 prósent sögðust drekka sjaldnar eða mun sjaldnar en venjulega en 15 prósent oftar eða mun oftar. Rúmlega 30 prósent sögðust drekka færri drykki en venjulega og 14 prósent sögðust drekka fleiri drykki en venjulega.
Þegar spurt var um ölvun, eða hvort viðkomandi hafi drukkið fleiri en fimm drykki við sama tilfelli, sögðust um 35 prósent gera það aðeins eða mun sjaldnar en venjulega og aðeins 3 prósent oftar en venjulega. Alls svöruðu 850 manns könnuninni.
Drykkja skammgóður vermir
Á vefsíðu embættis landlæknis kemur fram að það sé ánægjulegt að sjá að flestir landsmenn hafi farið eftir tilmælum að auka ekki áfengisnotkun sína á meðan faraldurinn gekk yfir.
Alma Möller landlæknir ítrekaði á daglegum blaðamannafundi þann 29. mars að ekki væri gagnlegt að nota áfengi til að takast á við erfiðar tilfinningar eins og áhyggjur og kvíða – eða til að slaka á. Það væri skammgóður vermir sem gerði ógagn.
Fram kom í fréttum sömu viku að sala á áfengi í Vínbúðunum hefði aukist um 24 prósent í lítrum talið síðan samkomubannið hófst, miðað við sömu vikur í fyrra. Viðskiptavinum hefði þó ekki fjölgað eins, svo hver og einn keypti meira. Lítrasala á rauðvíni og hvítvíni hefði aukist um helming.