Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hefur farið fram á að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, komi fyrir nefndina og útskýri afskipti ráðuneytis hans af ráðningu Þorvaldar Gylfasonar sem ritstjóra norræns fræðitímarits um hagfræði.
Guðmundur Andri greinir frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook.
Kjarninn greindi frá því í morgun að starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefði komið þeim boðum til kollega sinna í norrænum fjármálaráðuneytum og til Norrænu ráðherranefndarinnar að ráðuneytið gæti ekki stutt að Þorvaldur, sem er hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, yrði ráðinn sem ritstjóri norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review.
Þarna fór starfsmaður ráðuneytisins með rangfærslur. Þorvaldur var vissulega á meðal stofnenda Lýðræðisvaktarinnar árið 2013 og leiddi hana til Alþingiskosninga þar sem flokkurinn hlaut 2,46 prósent atkvæða, en hætti síðan í stjórn flokksins um haustið 2013 og hefur ekki gegnt trúnaðarstörfum í stjórnmálum síðan.
Kjarninn greindi frá því í kvöld að ráðuneytið hefði stuðst við rangar upplýsingar, sem það segir að hafi verið að finna á Wikipedia-síðu um Þorvald, þegar það kom ofangreindum boðum til sérfræðinga í starfshópi norrænu fjármálaráðuneytanna.
Samkvæmt svari ráðuneytisins var ákvörðunin um að bera fram þessi sjónarmið um Þorvald, að hann væri of pólitískt virkur til að njóta stuðnings Íslands í starfið, „ekki borin undir ráðherra né aðra á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins.“
Ekki fékkst skýrt svar við því hvort sú ákvörðun að hafna Þorvaldi hefði verið tekin af starfsmanni ráðuneytisins sem var í samskiptum við norræna stýrihópinn fyrir Íslands hönd eða einhverjum öðrum innan ráðuneytisins.