Fyrst þegar gerð var tillaga til norræns stýrihóps sem fer með ráðningu í starf ritstjóra fræðaritsins Nordic Economic Policy Review (NEPR) um að Þorvaldur Gylfason kæmi til greina í stöðuna lýsti fulltrúi danska fjármálaráðuneytisins í stýrihópnum því yfir að ráðuneytið samþykkti að Þorvaldur tæki að sér starfið. Síðan varð afstaða Íslands ljós og þá snerist danska ráðuneytinu hugur.
Þetta segir Lars Calmfors hagfræðiprófessor við Stokkhólmsháskóla, sem tók þátt í ákvarðanatöku starfshópsins síðasta haust sem sitjandi ritstjóri NEPR, í svari við spurningu Kjarnans. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að Ísland hefði ekki verið eina ríkið sem ekki féllst á tillögu um ráðningu Þorvalds í stöðuna, þegar til kastanna kom.
Hitt ríkið sem studdi Þorvald ekki var Danmörk, en fulltrúi danska ráðuneytisins í stýrihópnum hafði þó sem áður segir engar athugasemdir við það að Þorvaldur tæki að sér starfið áður en Ísland lýsti yfir andstöðu sinni við að Þorvaldur kæmi til álita vegna stjórnmálaþátttöku sinnar.
Calmfors segir að afstaða danska ráðuneytisins hafi ekki verið byggð á því að Þorvaldur væri á einhvern hátt óhæfur til starfsins, heldur segir hann að fulltrúi Danmerkur hafi einfaldlega, eftir því hann best muni, borið fyrir sig stuðningsleysi íslenska ráðuneytisins.
Prófessorinn lýsti því í samtali við Kjarnann að fulltrúar hinna Norðurlandanna í stýrihópnum hefðu sumir hverjir verið óánægðir með afstöðu íslenska ráðuneytisins og komið þeirri óánægju á framfæri munnlega á fundi sem haldinn var eftir að afstaða Íslands í málinu var ljós.
Fjármálaráðherra sagði NEPR ekki vera óháð fræðirit
Bjarni Benediktsson fullyrti í færslu sinni í morgun að ekki væri hægt að líta á NEPR sem „óháð fræðirit“, heldur væri ritinu ætlað að styðja við stefnumótun norrænu ríkjanna í efnahagsmálum. Hann sagði ennfremur að sýn og áherslur Þorvaldar gætu engan veginn stutt við stefnumótun í ráðuneyti sem hann stýrði.
Calmfors sagði í samtali við Kjarnann í gær að það flækti vissulega málin að Norræna ráðherranefndin væri pólitísk eining og að flest fræðirit væru gefin út með sjálfstæðari hætti. En þó væri það svo að ristjórastarfið væri akademískt starf, þar sem pólitískar skoðanir hæfra fræðimanna ættu ekki að koma til nokkurra álita við ráðninguna.
Sá munur birtist í orðanotkun Bjarna annars vegar og Calmfors hins vegar að að Bjarni segir ritinu ætlað að „styðja við“ stefnumótun norrænu ríkjanna en Calmfors segir að ritinu sé ætlað að birta rannsóknir sem geti nýst norrænu ríkjunum við opinbera stefnumótun.
Ritið er ritrýnt tímarit, sem gefið er út undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar og er því ætlað, samkvæmt lýsingu á vef Norðurlandaráðs að koma nýjustu rannsóknum í hagfræði á framfæri við þá sem taka stefnumótandi ákvarðanir um efnahagsmál á Norðurlöndum og aðra sem hafa áhuga á rannsóknum. Ritinu er einnig ætlað að vera framlag til norrænnar þekkingaröflunar um efnahagsmál.
Efnistökunum er stýrt af norræna stýrihópnum, sem akademískur ritstjóri og fulltrúi rannsóknastofnunarinnar Nordregio eiga sæti í, auk fulltrúa norrænu ráðuneytanna. Valið er eitt þema á hverju ári til þess að taka sérstaklega fyrir. Í síðustu útgáfu ritsins var fjallað um loftslagsmál og Norðurlöndin, í sex mismunandi fræðigreinum.