Danska ríkisstjórnin skipti um skoðun og nú mega Íslendingar og aðrir ferðamenn sem hyggja á för til Danmerkur eftir að ríkið opnar landamæri sín fyrir þeim á mánudag gista í Kaupmannahöfn. Frá þessu er greint á vef danska ríkisútvarpsins DR.
Dómsmálaráðherra landsins, Nick Hækkerup, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag. Ennþá verður þó sú regla í gildi að sá sem ætlar að fara til Danmerkur þarf að sýna fram á að hann ætli sér að gista í landinu í allavega sex nætur.
Danir ætlar að opna landamæri sín afar varfærnislega, en frá og með 15. júní mega einungis ferðamenn frá Íslandi, Noregi og Þýskalandi koma til landsins. Þegar þetta var kynnt fyrir tveimur vikum síðan var þó lagt blátt bann við því að ferðamenn gistu í Kaupmannahöfn, sökum þess að þar væru flest virk kórónuveirusmit.
Ferðaþjónustan í höfuðborginni var þó allt annað en sátt með áætlað fyrirkomulag og mikill pólitískur þrýstingur hefur verið á ríkisstjórnina um að leyfa ferðamönnum að bóka sér gistiheimili, hótel eða íbúðir í Kaupmannahöfn.
Fáir túristar frá löndunum þremur heimsækja Kaupmannahöfn
Í frétt DR segir að Kaupmannahöfn fái alla jafna tæplega annan hvern túrista sem kemur til Danmerkur, en þeir ferðamannahópar sem nú fá leyfi til að sækja landið heim frá og með mánudeginum eru þó ekki gjarnir á að dvelja í Kaupmannahöfn.
Í fyrra komu samanlagt um það bil tæp ein og hálf milljón ferðamanna frá Þýskalandi, Noregi og Íslandi til Danmerkur, en um það bil 1,3 milljónir þeirra fara ekki til Kaupmannahafnar á ferð sinni um landið.