Bjarni Benediktsson telur að viðbrögð Lars Calmfors, sænsks hagfræðiprófessors og fyrrverandi ritstjóra fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review, við því að íslensk stjórnvöld hafi lagst gegn því að Þorvaldur Gylfason yrði fenginn í starf tímaritsins á grundvelli stjórnmálaskoðana, megi mögulega rekja til þess að þarna hafi „gamla góða kunningjasamfélagið“ ætlað að fá ráða því hver yrði ráðinn til verksins.
Þetta sagði Bjarni á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun, er Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar spurði hann út í þá gagnrýni sem sænski prófessorinn setti fram í viðtali við Kjarnann í síðustu viku.
Calmfors sagði það ótækt að íslenska ráðuneytið hefði notað stjórnmálaskoðanir Þorvaldar sem ástæðu fyrir því að hann nyti ekki stuðnings í starfið. Hann sagðist vona að slíkar ástæður myndu sænsk stjórnvöld aldrei bera fram.
Bjarni segir að hann telji mögulegt að þessi hörðu viðbrögð megi einnig rekja til þess að búið var að stinga upp á Þorvaldi og bjóða honum starfið, í umboðsleysi, en eins og rakið var í frétt Kjarnans í morgun bauð starfsmaður Norrænu ráðherranefndarinnar Þorvaldi að taka að sér starfið í lok október í fyrra með vitund bæði títtnefnds Calmfors og Kjell Nilsson, yfirmanns norrænu rannsóknastofnunarinnar Nordregio.
Calmfors segir að hann telji Hedberg hafa talið sig vera kominn í tímaþröng með að finna einhvern í starfið, en fjármála- og efnahagsráðherra sagðist aðspurður ekki vita til þess að stýrihópurinn hefði verið kominn í tímaþröng með að finna nýjan ritstjóra.
Bjarni sagðist telja að Calmfors og Þorvaldur „fylgdust vel hvor með öðrum“ þar sem þeir hefðu starfað saman á árum áður.
„Ég ætla að leyfa mér að velta upp þeirri spurningu hér, af því að hér eru menn að segja að það sé nú ekki gott að pólitíkin komi of nálægt svona hlutum, hvort að þarna kunni mögulega svona gamla góða kunningjasamfélagið hafa verið á störfum, svona tveir fullorðnir menn sem hafa þekkst lengi í gegnum áratugina, þeir ætla bara að ákveða þetta svona sín á milli,“ sagði Bjarni.