Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra út í mál Þorvaldar Gylfasonar Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Í fyrirspurn sinni las hún upp úr yfirlýsingu frá Félagi prófessora við ríkisháskóla þar sem meðal annars segir um afskipti fjármálaráðuneytis af ráðningu í ritstjórastöðu NEPR: „Þessi afskipti skortir málefnalegan grundvöll og afhjúpar skilningsleysi á vísindastarfsemi.“
Þá sagði hún frá því að Lars Calmfors, fyrrum ritstjóri NEPR, óttist það að afstaða Íslands að leggjast gegn því að Þorvaldur komi til greina af pólitískum ástæðum geti skaðað trúverðugleika tímaritsins. Í kjölfarið spurði hún Bjarna hvort hann hefði móttekið skilaboð akademíunnar, hvort hann taki þau til sín og hvort þau hafi breytt afstöðu hans.
Bjarni svaraði því til að það væri ekki meint pólitísk þátttaka Þorvalds Gylfasonar sem vakin var athygli á á sínum tíma, heldur var verið að vekja athygli á því að hann hefði verið virkur á sínum tíma sem formaður stjórnmálaflokks.
Bjarni segir prófessora hafa „fallið á prófinu“
Bjarni sagði enn fremur að aldrei hefði verið fullyrt að viðkomandi væri enn formaður í stjórnmálaflokki. Eins og fram hefur komið í umfjöllun Kjarnans stóð engu að síður í tölvupósti frá fjármálaráðuneytinu að Þorvaldur væri enn „samkvæmt okkar bestu vitund“ formaður Lýðræðisvaktarinnar. Í tölvupóstinum var einnig sagt að það væri mat starfsmanna í fjármálaráðuneytinu að það væri ekki viðeigandi að einstaklingur sem er pólitískt virkur væri ráðinn í starfið, sérstaklega ekki einhver sem er formaður stjórnmálaflokks.
Í svari sínu til Þórhildar Sunnu sagði Bjarni Félag prófessora við ríkisháskóla hafa fallið á prófinu um það raunhæfa verkefni sem væri umræðan um ritstjórastöðuna. „Ekki er tekið tillit til ólíkra sjónarmiða, ekki getið heimilda og svo framvegis, byggt á einhliða frásögn af málinu. Og komist að niðurstöðu algjörlega án þess að ígrunda allar hliðar málsins,“ sagði Bjarni um afstöðu félagsins.
Undir lok svars síns sagði Bjarni aðalatriði málsins vera það að Íslendingar áttu ekki að vera hafðir með í ráðum þegar ráð var í stöðuna. „Ég bendi háttvirtum þingmanni á að reyna að átta sig á aðalatriði málsins sem er það að menn ætluðu sjálfur án þess að spyrja okkur Íslendinga að ráða þessu máli til lykta. Það er hneykslið í þessu máli.“
Þórhildur spyr hvort Bjarni ætli að biðjast afsökunar
Þórhildur Sunna tók í kjölfarið til máls í annað sinn. Hún sagði Bjarna hafa lýst þeirri skoðun sinni að kunningsskapur Lars Calmfors við Þorvald Gylfason hefði ef til vill ráðið því að Lars hefði tilnefnt Þorvald í starfið. Hún vitnaði í kjölfarið í viðtal við Calmfors þar sem hann sagði meðal annars: „Það hendir alla að segja eitthvað í hugsunarleysi undir álagi. Engu að síður þætti mér við hæfi að fá afsökunarbeiðni frá ráðherranum þegar hann er búinn að hugsað málið.“
Þórhildur spurði Bjarna að lokum hvort hann væri búinn að hugsa málið og hvort hann hygðist ætla að biðja Lars afsökunar.
Hafði ekki hugmynd um að þeir þekktust
Í svari sínu þvertók Bjarni fyrir það að hafa fullyrt að vinskapur Lars við Þorvald hafi ráðið för. Hann sagðist hafa sagt að „úr fjarlægð lítur þetta þannig út eins og hér séu tveir gamlir kunningjar að spjalla sín í milli og ráðstafa þessari tilteknu stöðu.“
Hann segist ekki hafi ekki haft neinar forsendur til að fullyrða um vinskapinn: „En ég veit náttúrlega ekkert um það, tók það skýrt fram. Og ég hafði ekki einu sinni hugmynd um það hvort þeir þekktust vel, þessir tveir einstaklingar.“
Undir lok svars síns sagði Bjarni það ekki vera sitt hlutverk að biðjast afsökunar, en kallaði hins vegar eftir því að Íslendingar væru beðnir afsökunar. „Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að biðja einhvern prófessor úti í Svíþjóð afsökunar á því að benda á það sem allir sjá eftir að gögn málsins hafa núna komið fram? Að án þess að við Íslendingar værum spurðir þá voru menn byrjaðir að tala saman og póstur farinn á íslenska prófessorinn þar sem staðan var boðin. Hver ætlar að biðja okkur afsökunar á því?“