Ríkisskattstjóri opnaði á föstudaginn var fyrir umsóknir um lokunarstyrki og í gær höfðu yfir 100 umsóknir borist. Heildarfjárhæð þeirra er undir 200 milljónum.
Þeir einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem hófst fyrir 1. febrúar í ár og var gert að stöðva starfsemina í sóttvarnarskyni geta átt rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði að uppfylltum ýmsum skilyrðum. Stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga geta ekki sótt um lokunarstyrk. Þá eiga óskattskyldir aðilar, eins og til dæmis íþróttafélög og líknarfélög, ekki rétt á slíkum styrk.
Samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru skal fjárhæð lokunarstyrks vera jafnhá rekstrarkostnaði á því tímabili sem skylt var að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu, þ.e. á tímabilinu 24. mars til 4. maí, þó þannig að hann nemi að hámarki 800 þúsund krónum á hvern launamann eða að hámarki 2,4 milljónum króna á hvern rekstraraðila. Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna rekstraraðila samkvæmt lögum um tekjuskatt.
Auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar var birt í Stjórnartíðindum 23. mars. Samkvæmt henni urðu ákveðnir aðilar að láta af starfsemi eða þjónustu á grundvelli sóttvarnalaga.
Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum var gert að loka á gildistíma auglýsingarinnar. Þá var óheimilt að stunda starfsemi og þjónustu sem krafðist/hætt var við snertingu milli fólks eða mikillarnálægðar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta átti einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði gat haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.
Eitt þeirra skilyrða sem sett eru fyrir veitingu lokunastyrkja er að viðkomandi rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019. Það telst til vanskila í þessu sambandi ef gjöld og skattar sem greiða átti á árinu 2019 voru ógreidd í lok árs þótt gerð hafi verið greiðsluáætlun eða samningur um greiðslu eftir þann tíma.
Snorri Olsen ríkisskattstjóri segir við Kjarnann að nú sé verið að afgreiða þær uppsóknir sem þegar hafa borist. Í einhverjum tilvikum þarf mögulega að óska eftir frekari upplýsingum en afgreiðsla ætti ekki að taka meira en eina viku. Hann segir að ekki sé búið að taka saman tölfræði eftir einstökum greinum en að það verði gert síðar.