Heimilum sem þiggja fjárhagsaðstoðstoð sveitarfélaga fjölgaði um 12,9 prósent á milli áranna 2018 og 2019. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofunnar. Samtals fengu 5660 heimili fjárhagsaðstoð í fyrra og fjölgaði þeim um 646 frá árinu áður. Fjöldi heimila sem þáðu fjárhagsaðstoð náði hámarki árið 2013 og hefur verið á niðurleið síðan. Þetta er því í fyrsta sinn í sex ár sem fjöldinn eykst.
Í tilkynningu Hagstofunnar segir að útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar hafi hækkað um 867 milljónir á milli áranna 2018 og 2019 eða 26,4 prósent. Á föstu verðlagi nemur hækkunin 25,9 prósentum. Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar á árinu 2019 voru 160.800 krónur og hækkuð frá fyrra ári um 24.558 krónur. Fjárhagsaðstoð var greidd að meðaltali í 4,6 mánuði árið 2019 en í 4,5 mánuði árið 2018.
Fjögur prósent barna búa á heimilum sem fá fjárhagsaðstoð.
Í tilkynningunni segir: „Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2019 voru heimili einstæðra barnlausra karla 43,6% og heimili einstæðra barnlausra kvenna 22,9% en heimili einstæðra kvenna með börn 21,1%. Heimili hjóna/sambúðarfólks voru 10,5%. Árið 2019 voru 34,6% viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og af þeim tæp 88% án bótaréttar, alls 1.606 viðtakendur.“
2,6 prósent þjóðarinnar, alls 9.549 einstaklingar bjuggu á heimilum sem þáðu fjárhagsaðstoð árið 2019. Þar af voru 3.238 börn, 17 ára og yngri, alls fjögur prósent barna. Á milli ára fjölgar börnum í hópnum, árið 2018 bjuggu 2.710 börn á heimilum sem þáðu fjárhagsaðstoð eða alls 3,4 prósent. Þá bjuggu alls 8.206 einstaklingar á heimilum sem þáðu fjárhagsaðstoð.