Á fyrstu fjórum mánuðum ársins voru 90 prósent nýrra húsnæðislána óverðtryggð lán á breytilegum kjörum. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Þar segir einnig að mikil aukning hafi orðið í endurfjármögnun á húsnæðislánum það sem af er ári og að heimili landsins séu að færa sig úr lánum með föstum vöxtum yfir í lán með breytilegum vöxtum.
Í samantekt SFF kemur fram að á fyrstu fjórum mánuðum ársins veittu lánastofnanir um 44,5 milljarða í ný húsnæðislán að teknu tilliti til uppgreiðslna. „Þar af nema ný óverðtryggð húsnæðislán með breytilegum vaxtakjörum 48 milljörðum króna. Þetta er met á umræddu tímabili, svo langt aftur sem gögn Seðlabankans ná, og er fjárhæðin til að mynda rúmlega fjórfalt hærri en á sama tímabili árið 2019. Aðsókn í óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum kjörum hefur því aldrei verið meiri en nú,“ segir á vef SFF.
Á sama tímabili nema uppgreiðslur á húsnæðislánum á föstum vaxtakjörum alls níu milljörðum. „Þar er um að ræða algjöran viðsnúning á þróun slíkra húsnæðislána sem jukust til að mynda meira en húsnæðislán á breytilegum vaxtakjörum á sama tímabili í fyrra,“ segir þar.
Líkt og áður segir er langstærstur hluti nýrra húsnæðislána á breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Þessi þróun hefur haft það í för með sér að hlutdeild óverðtryggðra lána hefur aldrei verið meiri. Á síðustu tíu árum hefur hlutdeild þeirra farið úr því að vera 1,67 prósent upp í 28,36 prósent samkvæmt samantekt SFF.
Vextir hafa lækkað töluvert upp á síðkastið
Breytilegir vextir bankanna hafa lækkað umtalsvert síðasta eina og hálfa árið í kjölfar mikillar lækkunar stýrivaxta. Í upphafi árs í fyrra voru breytilegir óverðtryggðir vextir bankanna á bilinu sex til 6,6 prósent en eru nú 3,5 til 3,74 prósent. Líkt og Kjarninn hefur fjallað um hefur þessi lækkun gert það að verkum að vaxtakjör bankanna eru nú almennt betri en hjá lífeyrissjóðum, ef frá er talinn Birta lífeyrissjóður sem býður upp á 2,1 prósent vexti.
Lífeyrissjóðirnir hafa verið stórtækir á húsnæðislánamarkaði á undanförnum árum. Til að mynda hefur hlutdeild þeirra í heildarútlánum heimila rúmlega tvöfaldast á síðustu fjórum árum, að því er fram kemur í samantekt SFF. Nú er hins vegar farið að hægja á vextinum. Síðustu tvö ár nemur útlánaaukning lífeyrissjóðanna um 20 prósent á ársgrundvelli en var 40 prósent árið 2017 og 30 prósent árið 2018.
Gera ráð fyrir að bankarnir auki hlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði
Samkvæmt SFF er útlánavöxtur húsnæðislána lánastofnana alfarið bundinn við óverðtryggð lán og hefur vöxturinn verið um 26 prósent á ársgrundvelli það sem af er ári. SFF telur að hlutdeild bankanna muni aukast. „Líklegt verður að teljast að vinsældir óverðtryggðra húsnæðislána á breytilegum kjörum haldi áfram. Má því gera ráð fyrir að bankakerfið auki hlutdeild sína á húsnæðislánamarkaði á næstu misserum.“
Þrátt fyrir að vextir húsnæðislána hafi lækkað töluvert að undanförnu heldur sú lækkun ekki í við lækkun stýrivaxta. Stýrivextir Seðlabankans hafa aldrei verið lægri, þeir eru eitt prósent í dag en voru í upphafi árs 2019 4,5 prósent. Samkvæmt úttekt ASÍ um þróun á húsnæðisvöxtum hefur munur á stýrivöxtum og vöxtum á húsnæðislánum aukist um eitt til 1,5 prósentustig á þessu tímabili. Lántakendur hafa því ekki notið stýrivaxtalækkunar að fullu í formi lægri vaxta á húsnæðislánum.