Mikill styr hefur staðið um væntanlega bók John Boltons, The Room Where it Happened, en bókin kemur út í Bandaríkjunum á þriðjudaginn næstkomandi. Í leitan sinni við að stöðva útgáfu bókarinnar hefur dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna til að mynda höfðað mál gegn Bolton. Ráðuneytið hefur krafist þess að útgáfan verði stöðvuð þar sem í bókinni megi finna leynilegar upplýsingar sem stefnt geti þjóðaröryggi Bandaríkjanna í hættu. Þá sakar ráðuneytið hann um að hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar um yfirlestur sem hefði komið í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar rötuðu í bókina.
Umfjöllunarefni bókarinnar er fyrst og fremst mánuðirnir 17 sem Bolton starfaði við hlið Trumps sem þjóðaröryggisráðgjafi hans. Í bókinni er Bolton sagður lýsa Donald Trump sem spilltum, fávísum og kærulausum leiðtoga sem misbeitir valdi embættis síns sér í hag og lætur jafnvel hag þjóðarinnar mæta afgangi í embættisfærslum sínum.
Töluvert hefur verið fjallað um bókina í erlendum miðlum og hafa ýmis atriði í bókinni verið dregin saman á vefsíðum þeirra. Sumar sögurnar eru grátbroslegar en aðrar segja frá afglöpum sem Bolton segir að hefðu átt að vera rannsökuð betur í tengslum við ákæru á hendur forsetans fyrir embættisbrot sem hann var að lokum sýknaður af.
Það sem mesta athygli hefur vakið eru fullyrðingar Boltons um aðgerðir forsetans sem hefðu átt að vera rannsakaðar í tengslum við ákæru á hendur forsetans fyrir embættisbrot sem hann var að lokum sýknaður af. Trump var þá sakaður um að hafa beitt þrýstingi til þess að reyna að fá úkraínsk yfirvöld til að hefja rannsókn á demókrötum. Í bókinni fullyrðir Bolton að Trump hafi verið fús til þess að hlutast til um rannsóknir dómsmálaráðuneytisins til þess að vinna sér inn greiða hjá erlendum stjórnmálaleiðtogum og einræðisherrum. Þetta eru meðal atriða úr bók Boltons sem New York Times hefur tekið saman.
Greiði fyrir greiða
Fyrsta málið sem tekið er fyrir í umfjöllun New York Times snerta ásakanirnar sem voru í forgrunni ákærunnar fyrir embættisbrot forsetans, þrýstingur sem hann á að hafa beitt úkraínsk stjórnvöld. Málið lýsir sér þannig að Trump á að hafa farið fram á að í skiptum fyrir hernaðaraðstoð til Úkraínu myndu stjórnvöld þar í landi tilkynna það að hafin væri rannsókn á meintum misgjörðum nokkurra demókrata, þar á meðal Joe Bidens, en Biden er vitaskuld helsti andstæðingur Trumps á pólitíska sviðinu í Bandaríkjunum.
Trump hafi þar með notað hernaðaraðstoðina, sem nemur alls 391 milljón bandaríkjadala af opinberu fé, til þess að reyna að kría út aðstoð frá erlendu ríki sem myndi svo hjálpa honum í sinni pólitísku baráttu. Það eru þessi skipti á fjármunum og afskiptum úkraínskra yfirvalda sem ákæran um embættisbrot snerist um, sem sagt greiði fyrir greiða (e. quid pro quo). Í réttarhöldunum sjálfum var málflutningur vitna sleginn út af borðinu vegna þess að sönnunargögn þeirra voru fengin í gegnum milliliði. Bolton var hins vegar viðstaddur og því getur hann gefið raunsanna mynd af því hvernig Trump hafi reynt að hrinda rannsókn yfirvalda Úkraínu af stað.
Bolton segir að hann ásamt utanríkisráðherranum Mike Pompeo og varnarmálaráðherranum Mark Esper hafi ítrekað reynt að sannfæra forsetann um að láta hernaðaraðstoðina af hendi. Úkraínsk yfirvöld hafi nauðsynlega þurft á henni að halda vegna átaka sem úkraínski herinn stæði í. Að sögn Boltons hafi Trump sagst ekki vilja láta úkraínsk stjórnvöld hafa eitt né neitt fyrr en þau hefðu látið öll gögn sem snúa að rannsókn á Hillary Clinton og Biden af hendi.
Í bókinni segir Bolton sig hafa efast um að Trump hafi verið réttum megin við lögin í málinu og að háttsemi hans hafi alls ekki sæmt forseta Bandaríkjanna. Málið hafi auk þess haft nokkur áhrif á það að Bolton hafi á endanum ákveðið að hætta sem þjóðaröryggisfulltrúi Trumps.
En hvers vegna bar hann ekki vitni?
Þingmenn demókrata hafa gagnrýnt Bolton fyrir það að hafa ekki borið vitni gegn Trump. Hvers vegna leiddi hann ekki hið sanna í ljós í stað þess að sitja á upplýsingunum og hafa svo vel upp úr þeim með því að gefa þetta allt út á bók?
Útskýringu Bolton á þessari hlið málsins má finna í eftirmála bókar hans. Eftir að þingið hafi samþykkt að ákæra Trump fyrir misbeitingu valds hafi Bolton ætlað að bera vitni fyrir öldungadeildinni ef gefin hefði verið út kvaðning þess efnis. Svo fór á endanum að repúblikanar í öldungadeildinni komu í veg fyrir að hann bæri vitni. Það gerðu öldungadeildarþingmennirnir eftir að fréttir fóru að berast af því að í óbirtu handriti Boltons, sem nú er rétt óútkomið, hefði hann fullyrt að Trump hefði gerst sekur um að bjóða úkraínskum yfirvöldum hernaðaraðstoðina í skiptum fyrir þeirra aðstoð.
Bolton kennir demókrötum um að svo fór sem fór. Að hans mati hafi demókratar verið á of mikilli hraðferð við að koma málinu í gegnum þingið. Málið hafi því einungis snúið að samskiptum Trumps við Úkraínu en ekki höfðað á breiðari grunni.
Staðið í vegi fyrir réttlætinu
Á meðal þeirra atriða sem Bolton telur að þingið hefði átt að rannsaka eru meðal annars vilji Trumps til þess að hlutast til um rannsóknir dómsmálaráðuneytisins. Það geri Trump sem persónulega greiða fyrir erlenda einræðisherra sem honum fellur vel við.
Í áðurnefndri umfjöllun New York Times um bókina er til dæmis sagt frá því að Trump hafi heitið Racep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta að hann myndi redda málunum fyrir Halkbank, tyrknesks banka sem lá undir rannsókn dómsmálaráðuneytisins vegna gruns um að bankinn hefði staðið í milljarða dala ráðabruggi sem sneri að því að komast hjá viðskiptaþvingunum sem Bandaríkin hafa beitt gegn Íran. Sömu sögu er að segja af kínverska fjarskiptafyrirtækinu ZTE en Bolton segir Trump hafa lofað Xi Jinping, forseta Kína, því að ZTE myndi ekki hljóta alltaf harða refsingu fyrir að sniðganga sambærilegar viðskiptaþvinganir.
Það hefur væntanlega verið Trump afar mikilvægt að halda góðu sambandi við Xi ef marka má ásakanir Bolton í garð Trumps. Í bókinni er fullyrt að Trump hafi biðlað til Xi Jinping um aðstoð við að ná endurkjöri. Sú aðstoð myndi fela í sér kaup Kínverja á bandarískum landbúnaðarafurðum, sem myndi þá hjálpa Trump að afla sér, eða halda, fylgi í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein.
Fávís forseti
Líkt og áður segir snúast ekki allar sögurnar í bókinni um misbeitingu valds eða afglöp forsetans. Þar má einnig lesa sögur sem ef til vill eiga að sýna fram á hve fávís forsetinn er. Til dæmis er sagt frá því í umfjöllun BBC að Trump hafi ekki vitað að Bretar réðu yfir kjarnorkuvopnum. Á fundi með Theresu May á embættismaður að hafa vísað til Bretlands sem kjarnorkuveldis. Trump svarar þá „Ó, svo þið eruð kjarnorkuveldi?“ Bolton tekur það skýrt fram að ekki hafi verið um grín að ræða.
En það voru fleiri gloppur í vitneskju forsetans. Skömmu fyrir fund með Vladimir Pútín Rússlandsforseta sem haldinn var í Helsinki, höfuðborg Finnlands, á Trump að hafa spurt hvort Finnland væri í raun og veru leppríki Rússlands.
Litli eldflaugamaðurinn
Svo er það ef til vill furðulegasta sagan af þeim öllum: sagan af samskiptum Trumps við Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sem gerð eru skil í umfjöllun The New Yorker. Baksagan er sú að árið 2017 hóf Trump að uppnefna Kim á Twitter í kjölfar eldflaugatilrauna Norður-Kóreu og tilrauna þeirra með kjarnavopn. Kallaði Trump þá Kim ýmist Eldflaugamanninn (e. Rocket Man) eða Litla eldflaugamanninn (e. Little Rocket Man).
Þegar samband leiðtoganna fór að skána varð Trump svo mjög upptekinn af því að koma höndum yfir áritað eintak af Rocket Man, lagi Elton John, á geisladiski. Diskinn átti svo að færa Kim Jong-un sem eins konar sáttagjöf. Trump vildi enda meina að hann hefði ekki uppnefnt Kim, hann hafi öllu heldur gefið honum gælunafn — svona eins og vinir gera.