Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir það tíðindi að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ætli að höfða dómsmál á hendur konu sem gerði athugasemd við embættisfærslu hennar og taldi rétt sinn brotinn. „Ég velti því fyrir mér hvort þessi ákvörðun hafi verið rædd í ríkisstjórn og hver sé afstaða Katrínar Jakobsdóttur til dómsmálsins. Forsætisráðherra fer með jafnréttismál eftir að hafa tekið málaflokkinn til sín í upphafi kjörtímabilsins, vafalítið til að gera jafnréttismálum sérstaklega hátt undir höfði.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook sem Hanna Katrín birtir í dag.
Greint var frá því í gær að Lilja ætli að höfða mál gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í lok maí að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að sniðganga í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Með því að stefna Hafdísi Helgu ætlar Lilja að reyna að ógilda úrskurð kærunefndarinnar.
Hanna Katrín rifjar upp í stöðuuppfærslunni að sama dag og lögbrot Lilju urðu ljós, 2. júní síðastliðinn, hafi hún beint spurningu um málið til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem Lilja sjálf hafi ekki verið í þingsal. „Forsætisráðherra tók við það tilefni sérstaklega fram að menntamálaráðherra þyrfti auðvitað að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu máli og að hún yrði vafalaust til svara í þingsal síðar til að reifa þau. Sú spá forsætisráðherra hefur því miður ekki gengið eftir. Menntamálaráðherra hefur síðustu vikurnar vissulega verið að störfum í ráðuneyti sínu. Hún situr ríkisstjórnarfundi og fréttir eru af störfum hennar í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Menntamálaráðherra sést jafnframt í þinghúsinu, t.d. á þingflokksfundum Framsóknar. Hún hefur bara ekki mætt í þingsal í fyrirspurnatíma þingmanna eftir að þetta mál kom upp. Þær eru því nokkuð margar spurningarnar sem enn er ósvarað varðandi þetta mál. Sú stærsta er þó; ríkir sátt í ríkisstjórninni um þessar áherslur í jafnréttismálum?“
Niðurstaðan að Hafdís Helga hafi verið vanmetin
Forsaga málsins er sú að í byrjun júní var greint frá því í fjölmiðlum að Lilja hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Hún hafi vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Hæfisnefnd hafði ekki talið Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfastir voru taldir í starfið.
Í kjölfar frétta um niðurstöðu kærunefndarinnar fjölluðu fjölmiðlar um formann hæfisnefndarinnar sem tók um ráðningu ráðuneytisstjórans. Formaður hennar er lögfræðingurinn Einar Hugi Bjarnason, sem Lilja hefur á tveggja og hálfs starfstíma sínum í ráðuneytinu, valið til margra trúnaðarstarfa. Ráðuneytið hefur á þeim tíma greitt Einari Huga alls 15,5 milljónir króna fyrir lögfræðiráðgjöf og nefndarsetu á vegum ráðuneytisins.