„Hugur okkar allra er hjá þeim sem tengjast þessum svakalegu atburðum sem áttu sér stað í gær,“ sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, við upphaf blaðamannafundar síðdegis í dag þar sem farið var yfir stöðu rannsóknar á eldsvoða í húsi að Bræðraborgarstíg 1 í gær sem varð þremur að bana. Jón Viðar segir að samkvæmt sínu minni sé þetta mannskæðasti eldsvoði á höfuðborgarsvæðinu í áratugi.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, fór á fundinum yfir atburðarásina allt frá því að tilkynning um eld barst Neyðarlínunni kl. 15.15 í gær og þar til karlmaður á sjötugsaldri, sem bjó í húsinu, var úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir hádegi í dag. Maðurinn er grunaður um að hafa kveikt eldinn.
Viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang eldsvoðans innan fimm mínútna frá því að tilkynningin barst.
„Erfiður vettvangur blasti við en allt að fimm einstaklingar sáust á efstu hæð hússins og virtust ekki getað komist út með eðlilegum hætti,“ sagði Ásgeir. „Tveir þeirra brugðu á það ráð að stökkva frá gluggum á þriðju hæð, einum var bjargað út með stiga sem reistur var við húsið en ekki var hægt að segja með óyggjandi hætti um afdrif hinna tveggja.“
Slökkvistarf tók talsverðan tíma enda vettvangurinn ótryggur. „En á sjöunda og níunda tímanum í gærkvöldi fundu slökkviliðsmenn þessa tvo einstaklinga látna á þriðju hæð hússins.“
Ásgeir greindi einnig frá því að á sömu mínútu og útkallið kom vegna brunans, eða klukkan 15.15, baðst aðstoðarbeiðni frá sendiráði Rússlands um mann sem lét þar ófriðlega við húsið. Lögreglan fór á vettvang og handtók manninn sem er á sjötugsaldri. Fljótlega kom í ljós að hann var íbúi í húsinu sem var að brenna.
„Lögreglan hefur rökstuddan grun um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum og fyrstu niðurstöður rannsóknar lögreglu, studdar gögnum, benda til að eldurinn hafi komið upp í eða við vistarverur mannsins,“ sagði Ásgeir. Í dag gerði svo lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kröfu um vikulangt gæsluvarðhald fyrir héraðsdómi Reykjavíkur og féllst dómari á þær kröfur.
„Þrír einstaklingar létust í þessum hörmulega atburði,“ sagði Ásgeir. „Tveir til viðbótar liggja á Landspítalanum, þar af annar á gjörgæsludeild og einn maður var útskrifaður af spítalanum í gærkvöldi.“
Hann sagði að ekki hafi enn verið borin kennsl á hina látnu með óyggjandi hætti en að á þriðju hæð hússins hafi búið sex erlendir ríkisborgarar.
Tveir menn voru handteknir við húsið í gær fyrir að hlíða ekki fyrirmælum lögreglunnar á vettvangi. Ásgeir greindi frá því á fundinum að þeir hefðu verið handteknir eftir að hafa hlaupið inn í brennandi húsið. Sagði hann að fólkið hafi mögulega ætlað að reyna að bjarga eigum sínum. Því var sleppt eftir yfirheyrslu í gær.
Í grein í Kjarnanum um málið fyrr í dag kom fram að sótt hafi verið um að breyta hluta húsnæðisins í gistiheimili árið 2014. Því var hafnað af umhverfis- og skipulagsráði. Jón Viðar rakti þetta einnig á fundinum nú síðdegis og bætti við að árið 2017 hafi slökkviliðið í tvígang skoðað jarðhæð hússins, þar sem áður var leikskóli, en að þá hafi enginn búið þar.
Ásgeir vildi ekki tjá sig um það að svo stöddu hvort til rannsóknar væri hvort íbúarnir sem þarna bjuggu hefðu tengsl við ákveðin fyrirtæki, t.d. starfsmannaleigu. „Það verður velt við öllum steinum og ef að þetta er möguleiki þá verður það skoðað.“