Stjórn Landverndar fær ekki séð að Stakksberg og eigandi þess, Arion banki, hafi sýnt fram á að endurbætur á kísilverksmiðjunni í Helguvík muni tryggja öryggi íbúa í Reykjanesbæ eða að losun gróðurhúsalofttegunda verði á því bili sem gert er ráð fyrir. Núllkostur, að ræsa verksmiðjuna ekki að nýju, er eini rökrétti kosturinn.
Þetta kemur fram í umsögn náttúruverndarsamtakanna Landverndar um frummatsskýrslu Stakksberg vegna fyrirhugaðrar endurræsingu og stækkunar kísilversins í Helguvík. Stakksberg er að fullu í eigu Arion banka.
Í umsögn sinni bendir Landvernd á að stóriðjuuppbygging í Helguvík sé ein sorgarsaga. „Kísilver United Silicon, álver í Helguvík, kísilver Thorsil og stórskipahöfnin í Helguvík hafa engum tilgangi þjónað enn nema að brenna upp fjármuni og spilla heilsu íbúa. Það er fullkomið tillitsleysi við íbúa á Reykjanesi og við framtíðarkynslóðir að reyna að fara aftur af stað með starfsemi sem fékk falleinkunn.“
Hvetur stjórn samtakanna Arion banka til þess að falla frá hugmyndum um að endurræsa kísilverið. Kísilverið í Helguvík sé „fulltrúi hrunsins og gamla tímans þar sem gegndarlaus og ósjálfbær ágangur á auðlindir viðgekkst. Nútíminn kallar á nýjar lausnir og fjárfestingar sem efla hringrásarhagkerfið. Þar er fjármunum bankans betur varið til heilla fyrir framtíðina.“
Stakksberg vill hefja rekstur kísilverksmiðjunnar á ný og bæta í framtíðinni við þremur ljósbogaofnum til viðbótar. Markmiðið er að framleiða 100 þúsund tonn af kísli á ári. Til þess þarf 80.000 tonn af kolum, 8.000 tonn af viðarkolum og 90 þúsund tonn af viðarflís ásamt þúsundum kílóa af fleiri hráefnum.
130 MW þarf fyrir fjóra ofna
Raforkuþörfin fyrir slíka framleiðslu er um 1.300 Gwh. Núverandi ofn verksmiðjunnar þarf um 32 MW við dæmigert álag og tryggir samningur við Landsvirkjun það afl. Ekki er þó útlit fyrir að orkan fáist afhent fyrr en á fyrri hluta ársins 2022 og því er gert ráð fyrir að framleiðslan geti hafist þá. Ekki hefur verið samið við orkufyrirtækið um raforku fyrir stækkun kísilversins en fjórir ofnar gætu þurft um 130 MW.
Landvernd telur að ekki sé hægt að samþykkja stækkun kísilverksmiðjunnar eins og lagt er til í frummatsskýrslu af þremur meginástæðum:
- Stakksberg hefur ekki fundið neinar skýringar á veikindum íbúa í nágrenni kísilversins sem þá var í eigu United Silicon. „Á meðan rökstuddur grunur leikur á að útblástur frá kísilverinu hafi verið ástæða veikinda íbúa en ekki hefur fundist hvað í útblæstrinum kanna að vera þess valdandi er rík ástæða til að óttast að heilsufari íbúanna verði stefnt í hættu með því að gangsetja verksmiðjuna aftur.“
- Gríðarleg aukning í losun gróðurhúsalofttegunda fylgir stækkuninni. „Ef af fullri stækkun verður mun losun frá Íslandi aukast um 10% sem er andstætt nauðsynlegum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.“
- Miklar rekstrartruflanir sem voru á starfsemi kísilvers United Silicon þegar það var í gangi. „Ef marka má fréttir hafa einnig orðið bilanir í kísilveri PCC á Bakka. Þar er því rík ástæða til að ætla að það sama gerist í áformuðu endurbættu kísilveri Stakksbergs.“
Hvetur Landvernd Skipulagsstofnun og aðra leyfisveitendur af þessum sökum og með fleiri rökum til að hafna umsóknum til stækkunar og endurnýjaðs reksturs verksmiðjunnar. „Þegar mikil óvissa er um áhrif framkvæmdar, og ekki síst ef heilsufar í aðliggjandi byggðum kann að vera í húfi, er skynsamlegt að grípa til varúðarreglunnar.“
Á rekstrartíma kísilvers United Silicon í Helguvík fundu íbúar Reykjanesbæjar og víðar fyrir ýmsum neikvæðum heilsufarsáhrifum. Þar sem íbúabyggð er eingöngu kílómetra frá athafnasvæði verksmiðunnar má að sögn Landverndar lítið út af bera til þess að hættuleg efni fari yfir byggðina og mengi andrúmsloft íbúanna. „Fram kemur í frummatsskýrslu og í svörum við athugasemdum úr samráðsferli, að Stakksberg hefur engar skýringar fundið á veikindum íbúanna sem tengdar hafa verið við kísilverksmiðjuna. Því er ekkert vitað um það hvort þær aðgerðir sem nú á að grípa til til þess að koma í veg fyrir að hættulegum efnum verði dælt yfir íbúabyggð muni virka. Á meðan orsök veikindanna finnst ekki, er ekki hægt að tryggja að þau muni ekki endurtaka sig þegar verksmiðjan verður aftur gangsett. Hægt er að leiða líkum að því að hár skorsteinn fyrir útblástur dragi úr þessum áhrifum. En reynslan ein fær úr því skorið. Það er ekki ásættanlegt að gera áframhaldandi tilraunir á íbúum án samþykkis þeirra.“
Í umsögn sinni segir Landvernd að endurbætur sem Stakksberg fyrirhugar á verksmiðjunni séu til einhverra bóta, eins og notkun skorsteins til þess að draga úr mengun yfir byggðina. Samtökin benda hins vegar á að samt sem áður sé verið að dæla jafn miklu (eða meira ef af stækkun verður) af mengandi efnum út í andrúmsloftið. Einnig verði að taka inn í reikninginn að í mörgum tilfellum verði að hleypa menguðu lofti út um rjáfur ef bilanir verða, eins og iðulega gerðist þegar verksmiðjan var áður í rekstri. „Landvernd hefur því ekki ástæðu til að ætla að fyrirhugaðar endurbætur á verksmiðjunni séu nægjanlegar til þess að koma í veg fyrir að þeir gríðarmiklu erfiðleikar í starfsemi verksmiðjunnar áður en henni var lokað, endurtaki sig.“
Þá vill stjórn Landverndar benda á að orðið „lyktarmengun“ sé villandi. „Lyktin er af efnum sem skynfæri manna greina og þeim geta fylgt hættuleg efni sem lyktarskynið greinir ekki.“
Má finna milljörðunum betri not
Landvernd telur að íbúar, vegna fyrri reynslu, verði að öllum líkindum aldrei sáttir við verksmiðjuna. „Það má því telja að affarasælast fyrir Arion banka sé að afskrifa verksmiðjuna, sem fram til þessa hefur verið öllum til óheilla. Endurbætur kosta 4,5 milljarða króna, helming af því sem núverandi ríkisstjórn áætlar í loftslagsmál á 5 árum. Ef til vill mætti finna milljörðunum 4,5 einhver betri not.“
Þá gagnrýnir Landvernd þá orðræðu forsvarsmanna orkufyrirtækja að í landinu sé orkuskortur og segir fyrirtækin hafa „stundað hræðsluáróður um að ekki sé til næg orka til dæmis til þess að knýja rafbílaflota landsins.“
Landvernd telur að þessar fullyrðingar standist ekki en telur að mikilvægt sé að taka meðvitaðar ákvarðanir um það í hvað orkan sem framleidd er á Íslandi með tilheyrandi spjöllum á íslenskri náttúru sé notuð. „Að mati stjórnar Landverndar ætti mengandi stóriðja eins og kísilver að vera neðarlega á forgangslista yfir orkukaupendur framtíðarinnar. Það er óásættanlegt að orkufyrirtækin geri samninga við stórkaupendur að orku og fullyrði svo að ekki sé til næg orka í landinu og að fara verði í frekari eyðileggingu á náttúrunni. Landsvirkjun hefur lofað orku til verksmiðjunnar óbreyttrar með afli sem nemur 35 MW. Þá orku væri heillavænlegra að nýta til annarra þarfa svo sem rafbílavæðingu, ræktun grænmetis eða rafvæðingu hafna.“