Kópavogsbær hefur sett í kynningu breytingar á deiliskipulagi fyrir vestari hluta Glaðheimahverfis, sem er hverfi sem er í uppbyggingu austan Reykjanesbrautar, á milli Smára- og Lindahverfa. Í nýju skipulagi er gert ráð fyrir allt 115 metra háum turni sem myndi gnæfa yfir nærliggjandi byggð og láta turninn á Smáratorgi, sem er í dag hæsta bygging landsins, virka lítinn í samanburði.
Sá turn er 77,6 metra hár og 20 hæðir, en turninn í Glaðheimahverfinu, sem mun standa töluvert hærra í landslaginu, á samkvæmt skipulaginu að verða 25 hæðir og allt að 114,9 metrar. Það er þó töluvert lægri turn en áætlað var að byggja í upphafi, en í núgildandi skipulagi hverfisins sem er frá 2009, er ráðgert að byggja 32 hæða turn undir atvinnustarfsemi og þjónustu.
Turninn verður að sjálfsögðu langhæsta húsið í Glaðheimahverfinu, sem þó verður háreist, en áætlað er að íbúðarhúsnæði í hverfinu verði á bilinu 5-12 hæðir, en að atvinnuhúsnæði verði að mestu á 3-5 hæðum. Fyrir utan auðvitað turninn háa, sem mun samkvæmt skipulaginu standa nyrst á uppbyggingarsvæðinu, næst Bæjarlind og alveg upp við Reykjanesbrautina.
Íbúabyggð bætt við í nýju skipulagi
Alls er áætlað að um 730 manns muni búa innan svæðisins í framtíðinni í 270 íbúðum, en ekki er gert ráð fyrir íbúabyggð í núgildandi skipulagi, heldur einungis atvinnuhúsnæði. Heildarbyggingamagn á svæðinu verður samkvæmt nýja skipulaginu um 132.000 fermetrar, en þar af er ráðgert að um 40.000 fermetrar verði í niðurgröfnum bílakjöllurum.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti að setja deiliskipulagið í kynningu á fundi sínum 9. júní síðastliðinn, en áður hafi bæjarráð fjallað um málið 7. maí og skipulagsráð bæjarins tekið skipulag hverfisins fyrir þann 4. maí. Frestur til þess að gera athugasemdir við skipulagið rennur út 19. ágúst.
Verkfræðistofan Mannvit vann minnisblað þar sem umhverfisáhrif af uppbyggingunni voru metin, meðal annars með hliðsjón af skuggavarpi frá fyrirhugaðri uppbyggingu. Þau áhrif voru metin neikvæð, en óveruleg, en samkvæmt myndum sem Mannvit dró upp af ætluðu skuggavarp mun skuggi frá turninum leggjast yfir allar akreinar Reykjanesbrautar um hádegisbil í marsmánuði.
Samkvæmt nýju skipulagi er gert ráð fyrir því að atvinnuhúsnæðið standi nær Reykjanesbrautinni, en að ofar í hæðinni nær Lindahverfi verði íbúabyggð og grænn bæjargarður, auk leikskóla.
Nánar má kynna sér fyrirhugaðar deiliskipulagsbreytingar á vef Kópavogsbæjar.