Umfangsmikil smitrakning hefur átt sér stað síðustu daga vegna hópsýkingar sem upp kom fyrir um viku. Á fimmta hundrað manns er í sóttkví vegna fjögurra smita sem greinst hafa síðustu daga.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hópsýkingin, þó að hún virðist lítil. Sé vísbending um að ástandið geti farið úr böndunum mjög hratt. Hann sagði nauðsynlegt að læra af þessari reynslu og að skoða mögulega að setja fólk sem er að koma til landsins frá hááhættusvæðum í sóttkví frekar en landamæraskimun. Þá sé mögulegt að Íslendingar verði frekar settir í sóttkví við komuna til landsins en útlendingar þar sem þeir eiga hér miklu víðtækara tengslanet.
„Við erum aðeins í öðrum leik núna en við vorum,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag, um það sem er að gerast hér núna samanborið við mars og apríl. Hann sagði að almenningur væri ekki eins móttækilegur fyrir umræðunni um smitvarnir nú og hættunni sem er til staðar. „Við verðum að standa öll saman í því. Það var auðveldara í byrjun mars að koma með þessi skilaboð.“
Hann brýndi fyrir fólki að ástandið yrði svona næstu mánuði – hætta á hópsýkingu yrði fyrir hendi áfram.
Frá upphafi landamæraskimunar þann 15. júní hafa rúmlega 17 þúsund manns komið til landsins og um 12 þúsund verið skimaðir fyrir veirunni. Aðeins fjögur virk smit hafi greinst en nítján hafa greinst með gamalt smit „og við höfum engar áhyggjur af“.
Sagði hann ánægjulegt að svo fáir hefðu greinst með veiruna.
Hins vegar væri hópsýkingin sem kom upp hér á landi á dögunum annað mál. Hann sagði mikilvægt að allir áttuðu sig á því að ekkert í fari stúlkunnar sem kom hingað til lands með veiruna án þess að hafa hugmynd um það, gefur tilefni til að ásaka hana.
Um 600 sýni hafa verið rannsökuð í tengslum við hópsmitið. Fjórir hafa greinst með veiruna og yfir fjögur hundruð farið í sóttkví. „Þetta dæmi sýnir að veiran er langt á frá horfin úr okkar lífi þó að lítið hafi borið á henni undanfarið,“ sagði Þórólfur og benti á að mest hætta sé á því að hún dreifist innanlands með Íslendingum.
Hann sagði hópsmitið „engan heimsendi“ enda varað við því lengi að til slíks gæti komið. „En það er full ástæða til að skerpa á nokkrum hlutum,“ sagði hann ákveðinn. Íslendingar verði að sýna sérstaka gát við komuna til landsins, jafnvel þótt að neikvæð niðurstaða fáist úr landamæraskimun. Þeir ættu að fara varlega í tvær vikur eftir komuna til landsins, forðast mannmarga staði, virða tveggja metra regluna og ástunda persónulegar sóttvarnir á borð við handþvott.
Sóttvarnalæknir segir að til skoðunar sé hvort að setja eigi fólk sem er að koma frá hááhættusvæðum í nokkra daga sóttkví við komuna til landsins, líkt og áður var gert. Skoða þurfi hópsýkinguna sem upp er komin betur áður en ákvörðun um það verður tekin.
Hann segir ekki síður mikilvægt að allir landsmenn séu á varðbergi. „Það er greinilegt að menn hafa slakað mjög, mjög á. Það er ekki gott og er áhyggjuefni. Það eru kjöraðstæður fyrir veiruna að ná sér á strik aftur ef hún á annað borð kemst inn í svona partí.“
Í ljósi þessara atburða sagði hann ekki hægt að segja til um hvenær fjöldatakmarkanir verða auknar úr 500 í 2.000 manns eins og hann hafði boðað að yrði gert um miðjan júlí. Þá sé ekki heldur fyrirséð hvenær hægt verði að rýmka afgreiðslutíma skemmtistaða en þeim ber nú að loka kl. 23. Einnig benti hann á að ekki verði á næstunni hægt að taka meira en 2.000 sýni úr komufarþegum.
Hér geta komið upp alvarlegar hópsýkingar
Ástæðan er sú, að sögn Þórólfs, að „við getum fengið hér alvarlegar hópsýkingar. Vonandi þurfum við ekki að stíga skref til baka og herða en það verður að koma í ljós. [...] Þó að bakslag hafi komið í faraldurinn held ég að við þurfum ekki að örvænta – með samhentu átaki og viðbrögðum ráðum við við þetta. Það yrði töluvert áfall ef við þyrftum að herða [reglur] eftir allar þær fórnir sem við höfum þurft að færa á undanförnum mánuðum.“
Íslensk yfirvöld hafa farið hraðar í afléttingu ýmissa takmarkana en mörg önnur lönd. „Það er hugsanlegt að það komi í bakið á okkur. Ef upp koma fleiri hópsýkingar verður að bakka.“
Alma Möller landlæknir tók undir varúðarorð Þórólfs um að það þurfi að skerpa á upplýsingagjöf til almennings. „COVID-19 hefur margsannað hversu lúmskur hann er. [...] Neikvætt próf er ekki óyggjandi.“
Tveggja metra reglan
Sagði hún heilbrigðisyfirvöld telja óþarft, eins og sakir standi, að fólk í áhættuhópum fari í verndarsóttkví. Hins vegar þurfi það fólk að fara sérstaklega varlega og huga að persónulegu hreinlæti, tveggja metra reglunni og að forðast mannmarga staði. Það sama eigi við um aðstandendur þessa fólks.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, var líkt og Alma og Þórólfur mjög ákveðinn er hann ræddi um sóttvarnirnar. Sagði hann m.a. að fólk yrði að virða það að það væri 500 manna samkomubann í landinu og að ef fólk væri að skipuleggja viðburði fyrir fleiri og ekki væri hægt að koma upp hólfaskiptingu sem útilokaði blöndun hópa, þyrfti að skipuleggja viðburðinn með öðrum hætti.