Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi mun dragast saman um 9 prósent á milli áranna 2005 og 2030 miðað við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem kynnt var í síðustu viku. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Lofts Thorlacius, umhvefisverkfræðings, á hádegisfundi um aðgerðaáætlunina sem haldinn var á Kjarvalsstöðum undir yfirskriftinni „Eru stjórnvöld að gera nóg?“
Að mati Sigurðar er margt gott að finna í áætluninni. Hann segir það vera frábært að með aðgerðaáætluninni ætli íslensk stjórnvöld sér að standa við skuldbindingar Íslands í aðgerðum í loftslagsmálum. Stefnt er að því að losun sem er á beinni ábyrgð Íslands dragist saman um 35 prósent. Þá fagnar hann því að í aðgerðaáætluninni séu settar fram magnsettar aðgerðir, það er að í áætluninni komi fram hversu miklum árangri hver aðgerð skili þar sem við á.
Hann gerir einnig nokkrar athugasemdir við áætlunina í erindi sínu en í henni er að finna grunnsviðsmynd sem á að sýna hver þróun losunar gróðurhúsalofttegunda væri án aðgerða. Þessa grunnsviðsmynd telur Sigurður vera heldur bjartsýna. Helmingur þess samdráttar í losun sem gert er ráð fyrir í áætluninni rúmist innan grunnsviðsmyndarinnar.
Þá gerir Sigurður athugasemdir við það hvernig losun frá landnotkun er sett fram í áætluninni. Þar sé einungis tekið fram hvaða áhrif aukin binding kolefnis muni skila sem og hver samdráttur í losun verður en ekki hversu mikil losunin sé. „Maður skilur samt að svona er þetta gagnvart okkar skuldbindingum. Þannig að það er alveg eðlilegt að birta þetta svona,“ segir Sigurður og bendir á að þessi losun sé ekki innan okkar skuldbindinga. Land hafi mikið til verið framræst fyrir viðmiðunarárið 2005.
Sigurður leggur sérstaka áherslu á heildarlosun í erindi sínu. Losun gróðurhúsalofttegunda er skipt í þrjá flokka: Losun sem er á beina ábyrgð Íslands, losun sem er innan ETS kerfisins (stóriðja og flugsamgöngur) og loks losun vegna landnotkunar.
Sigurður bendir á að á milli áranna 2005 og 2030 minnki losun sem er á beinni ábyrgð Íslands um 1.100 kílótonn. Á sama tíma aukist losun frá Íslandi sem fellur undir ETS kerfið um um það bil 1.000 kílótonn. Losun vegna landnotkunar dragist svo saman um 1.050 kílótonn. Samtals minnki losunin því um 1.150 kílótonn á milli áranna 2005 og 2030 eða alls um 9 prósent.