Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lagði gríðarlega áherslu á það á upplýsingafundi almannavarna í dag að skipuleggjendur samkoma útfæri hólfaskiptingu rétt, standi til að bjóða fleiri en 500 manns á svæðið. Enginn samgangur eigi að vera á milli hólfa – hvorki hjá gestum eða starfsfólki.
Víðir sagði að lögreglan hefðu á síðustu dögum og vikum fengið margar ábendingar um samkomur þar sem hólfaskipting átti að vera til staðar en var ábótavant. Hann fór því rækilega í saumana á þeim reglum sem eru í gildi. Í fyrsta lagi, minnti Víðir á, þá er samkomubann í gildi sem miðast við að ekki fleiri en 500 manns mega koma saman. Hins vegar er hólfaskipting leyfileg en þó aðeins að því gefnu að engin blöndun sé á milli fólks sem er í hólfunum eða þjónustar með einhverjum hætti þá sem þar eru.
Ýmsar leiðbeiningar hafa verið gefnar út um þetta en í ljósi ábendinga um að framkvæmd hólfaskiptingar sé oft ekki rétt skrifuðu hann og sóttvarnalæknir minnisblað í morgun um málið sem sent var öllum lögreglustjórum og fleirum.
„Enginn samgangur eða blöndun milli hólfanna á að vera,“ ítrekaði Víðir. „Þetta er sett í sóttvarnaskyni og það gengur þvert á tilgang fjöldatakmarkana að hafa 500 manna hólf ef þau geta svo blandast fram og til baka eins og hverjum sýnist.“
Hann benti svo á að fólk sem væri með einhver sjúkdómseinkenni, fólk sem væri í sóttkví og fólk sem hefði verið í einangrun og ekki liðnar tvær vikur frá henni, ætti ekki að koma á samkomur. Það sama gilti um þá sem hefðu verið erlendis síðustu fjórtán daga. Þá eru gestir á samkomum beðnir að virða tveggja metra regluna eins og unnt er.
Hvað varðar hólfin sjálf sagði Víðir að skilgreining þeirra og aðskilnaður þyrfti að vera greinilegur. Góður aðgangur að handþvotti og handspritti eigi að vera til staðar. Hvert hólf þarf að hafa sinn inngang og sinn útgang og að minnsta kosti fjögur salerni séu fyrir hvert hólf. Miðasala og öll önnur þjónusta þarf að vera aðskilin milli hólfa. Enginn samgangur er heimilaður á milli hólfanna, ekki hjá gestum og ekki hjá starfsfólki.
Víðir minnti einnig á að veitingastaðir þar sem seldar eru vínveitingar mega ekki hafa opið lengur en til 23 á kvöldin. „Og við viljum líka hvetja til þess að opinberar skemmtanir sem ekki eru leyfisskyldar standi ekki lengur heldur en til 23.“
Verðum að sýna ábyrgð
Víðir sagði að þetta væru leiðbeiningar sem byggðar eru á samkomubanninu. „En þetta mun auðvitað ekki virka ef við sýnum ekki ábyrgð. Skipuleggjendur viðburða þurfa að sýna ábyrgð með því að bjóða upp á skipulag sem samræmist þessum leiðbeiningum. En við öll, sem mætum á svona staði, við þurfum líka að sýna ábyrgð.“
Sagðist hann síðustu daga hafa átt nokkur samtöl við fólk sem sé að kvarta yfir að viðburður sem það sótti hafi ekki verið í lagi hvað þetta varðar. Hann spurði alla hvað þeir hefðu gert – hvort að þeir hefðu farið. Svörin hafi verið sú að það hafi fólk ekki gert heldur „þvælst á milli allra hólfanna“.
„Það er náttúrlega alveg glatað að þykjast vera að sýna ábyrgð með því að kvarta yfir þessu og hafa svo ekki sýnt neina ábyrgð á staðnum. Það getur enginn gert þetta fyrir okkur. Við verðum að gera þetta saman og það þurfa allir að taka þátt í þessu.“
Hann benti þeim sem vildu kvarta á að ganga fyrir með góðu fordæmi og kvarta til skipuleggjenda.