Bíó Paradís mun hefja starfsemi sína að nýju í haust en samstarfssamningur Heimila kvikmyndanna, rekstraraðila Bíós Paradísar, við ríki og borg hefur verið uppfærður. Ríki og borg munu hvort um sig hækka framlag sitt til Heimila kvikmyndanna um 13 milljónir á ári. Þetta segir Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Kjarnann.
Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu segir að kvikmyndahúsið hafi verið lokað um nokkurt skeið vegna kórónuveirufaraldursins og vegna óvissu um leigu á húsnæði, óvissu sem nú hefur verið eytt.
„Vegna aðstæðna þurfti Bíó Paradís að segja upp öllu starfsfólki síðastliðið vor, en þá höfðu aðilar ekki náð saman um leigukjör og nauðsynlegar endurbætur og viðhald húsnæðisins til lengri tíma. Það hefur nú tekist, eftir að málsaðilar slógu af ítrustu kröfum sínum og mættust á miðri leið,“ segir í tilkynningunni. Leiguverðið mun því hækka en ekki jafn mikið og til stóð í upphafi.
Stefnt er að því að opna Bíó Paradís um miðjan september næstkomandi. Þá verða liðin tíu ár frá því að bíóið hóf starfsemi sína. Áherslan hefur verið lögð á að sýna nýjar kvikmyndir frá öllum heimshornum auk eldri mynda, bæði innlendra og erlendra. Bíóið hefur auk þess staðið fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum og hýst kvikmyndahátíðir.
„Við erum með þessu að tryggja að Bíó Paradís sinni áfram þeirri mikilvægu menningarstarfsemi sem hún hefur sinnt undanfarin áratug. Bíóið er sannkölluð vagga kvikmyndamenningar í Reykjavík og á landinu öllu. Þá er ótrúlega mikilvægt að Hverfisgatan verði áfram heimili kvikmyndanna og haldi áfram að sjá kvikmyndaþyrstum gestum fyrir fjölbreyttu framboði af allskonar bíómyndum frá öllum heimshornum,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í tilkynningunni.